Viðskiptaráð Íslands

Mikilvægt að hraða endurskoðun laga um rammaáætlun

Viðskiptaráð ítrekar þá afstöðu sína að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, jafnan nefnd rammaáætlun, þjóni ekki markmiðum sínum.

Viðskiptaráð hefur áður veitt umsögn um drög að tillögu verkefnastjórnar. Ráðið vill árétta fyrri athugasemdir og telur nauðsynlegt að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri þótt það taki alla jafna ekki efnislega afstöðu til einstakra virkjunarkosta.

Viðskiptaráð ítrekar þá afstöðu sína að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, jafnan nefnd rammaáætlun, þjóni ekki markmiðum sínum. Mats- og flokkunarferlið er tímafrekt, ófyrirsjáanlegt, ógagnsætt og kostnaðarsamt. Á sama tíma hafa lögin ekki náð að stuðla að breiðari sátt um virkjunarkosti né tryggt næga orkuöflun til að mæta þörfum atvinnulífs og samfélags. Mikilvægt er að hraða heildarendurskoðun laganna til að tryggja samkeppnishæfni við aðrar þjóðir sem vinna að því hörðum höndum að einfalda regluverk til að hraða aukinni orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Ráðið hefur, líkt og fleiri aðilar, varað við yfirvofandi raforkuskorti sem mun hafa í för með sér neikvæð áhrif á verðmætasköpun og lífskjör. Í nýútgefinni raforkuspá Landsnets fyrir tímabilið frá 2024 til 2050 er til að mynda gert ráð fyrir viðvarandi orkuskorti. Eftirspurn eftir raforku muni halda áfram að vaxa og ekki sé nægilega mikið af virkjanakostum í nýtingarflokki til að mæta eftirspurn eftir raforku ef áætlanir um full orkuskipti gangi eftir.

Aukin orkuframleiðsla er forsenda aukinnar verðmætasköpunar og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi. Ráðið telur að tillaga verkefnastjórnar um að færa virkjanakosti í verndarflokk samrýmist ekki öðrum áætlunum stjórnvalda, svo sem um aukna orkuöflun, orkuskipti og alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Það sé hér eftir sem hingað til brýnt að stjórnvöld tryggi að aðgerðir þeirra gangi ekki í berhögg við hvora aðra.

Ráðið áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á síðari stigum.

Virðingarfyllst,
María Guðjónsdóttir
Lögfræðingur Viðskiptaráðs

Tengt efni

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024

Hallalaus fjárlög: Níu hagræðingartillögur Viðskiptaráðs

Í fjárlögum 2025 er áformað að reka ríkissjóð með 41 ma. kr. halla, sem væri …
8. október 2024