8. maí 2009
Í ljósi mikils vægis neikvæðra frétta undanfarnar vikur og mánuði er ekki úr vegi að minna á það sem vel gengur. Viðskiptaráð mun því endrum og eins draga saman það helsta sem telst til jákvæðra frétta, stórra sem smárra, innlendra sem erlendra. Rétt er að taka það fram að hér er hvorki um ítarlega né tæmandi greiningu að ræða, heldur samantekt sem eingöngu hefur þann tilgang að minna á að þrátt fyrir erfitt efnahagsástand hérlendis og erlendis er margt á réttri leið og því má ekki gleyma. Það er von Viðskiptaráðs að áður en um of langt líður horfi til betri vegar og samantekt af þessu tagi verði óþörf.
- Seðlabankinn lækkaði vexti um 2,5% á fimmtudag og standa þeir nú í 13,0%. Á nokkrum síðustu vikum hafa stýrivextir lækkað úr 18% í 13% og bankinn boðar auk þess umtalsverða vaxtalækkun í byrjun júní. Unnið er að aðgerðum til að losa erlenda eigendur krónueigna úr stöðum sínum án þess að gengið sé á gjaldeyrisforða Seðlabankans.
- Gengi krónunnar hefur hækkað talsvert á erlendum mörkuðum og það má túlka á þá leið að erlendir aðilar líti bjartari augum til íslensks efnahags. Gengið erlendis nálgast því gengið á innlendum gjaldeyrismarkaði.
- Vöruskipti við útlönd voru jákvæð um 2,3 milljarða í apríl en á sama tíma í fyrra var þau neikvæð. Það sem af er ári eru vöruskipti við útlönd jákvæð um tæpa 17 milljarða.
- Gistinóttum á íslenskum hótelum fjölgaði í mars miðað við sama tímabil í fyrra Aukning er í bókunum ferðamanna til landsins og útlit fyrir að ferðaþjónusta muni eiga mjög gott sumar.
- Verðþróun hlutabréfa á erlendum mörkuðum er að snúast til betri vegar. Flestir markaðir hafa hækkað talsvert síðustu vikur.
- Það styttist í málefnasamning nýrrar ríkisstjórnar og þá ættu meginlínur í efnahagsstefnu nýrrar ríkisstjórnar að skýrast og um leið sýn til framtíðar.
- Erlendir aðilar sýna íslenskum fyrirtækjum áhuga, bæði til samstarfs og fjárfestinga. Marorka gerði stóran samning við norska fyrirtækið Kongsberg og gerir ráð fyrir fjölgun starfsfólks í kjölfarið. Einnig var gerð grein fyrir áhuga bandarískra fjárfesta á Geysi Green Energy sem eru jákvæð tíðindi.
- Dregið hefur úr atvinnuleysi á milli mánaða í fyrsta sinn frá því í október á síðasta ári. Samkvæmt Vinnumálastofnun fækkaði atvinnulausum um á annað hundrað frá byrjun apríl fram í byrjun maí.
Góða helgi.