Viðskiptaráð Íslands

Bjartsýni í vikulok

Í ljósi mikils vægis neikvæðra frétta undanfarnar vikur og mánuði er ekki úr vegi að minna á það sem vel gengur. Viðskiptaráð mun því endrum og eins draga saman það helsta sem telst til jákvæðra frétta, stórra sem smárra, innlendra sem erlendra. Rétt er að taka það fram að hér er hvorki um ítarlega né tæmandi greiningu að ræða, heldur samantekt sem eingöngu hefur þann tilgang að minna á að þrátt fyrir erfitt efnahagsástand hérlendis og erlendis er margt á réttri leið og því má ekki gleyma. Það er von Viðskiptaráðs að áður en um of langt líður horfi til betri vegar og samantekt af þessu tagi verði óþörf. 

  • Erlendir ferðamenn eyða hærri fjárhæðum á Íslandi en áður samkvæmt tölum um endurgreiðslu virðisaukaskatts til ferðmanna. Þannig hafa alls 1,5 ma.kr. verið endurgreiddir það sem af er ári samanborið við 0,5 ma.kr. á sama tímabili í fyrra.
  • Vonir standa til þess að ferðamönnum fjölgi á næstu árum og að þeir verði orðnir rúm milljón árið 2020, samkvæmt áætlunum Samtaka ferðaþjónustunnar. Gert er ráð fyrir um hálfri milljón erlendra ferðamanna í ár.
  • Íslenski ferðavefurinn Dohop hefur verið valinn einn af fimm bestu ferðavefjum heims samkvæmt úttekt CNN-fréttastofunnar. Þetta eru mikil meðmæli með íslensku hugviti og til vitnis um þann kraft sem býr í íslensku nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi.
  • Icelandair náði efstu sætum í nýrri neytendaskýrslu sambands evrópskra flugfélaga yfir frammistöðu flugfélaga á síðasta ári. Hlaut flugfélagið mikið lof fyrir stundvísi, fullnustu fluga og skilvísi farangurs.
  • Nýja Kaupþing hefur fellt niður uppgreiðslugjald íbúðalána sem gerir einstaklingum kleift að greiða hraðar niður skuldir sínar en áður.
  • Skógræktarfélag Íslands áformar að skapa allt að 1000 ný störf í tengslum við uppgræðslu á grænum svæðum skógræktarfélaga landsins. Um tímabundin störf er að ræða, einkum sumarstörf til handa ungu fólki sem hefur hug á að starfa við landgræðslu.
  • Undirritaður hefur verið stöðugleikasáttmáli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Þetta er mikilvægur liður í að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði við þær viðkvæmu aðstæður sem nú ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar.
  • OECD hefur hækkað hagvaxtarspá sína í fyrsta skipti í tvö ár, en gert er ráð fyrir hagvexti upp á 0,7% meðal ríkja OECD á næsta ári í stað 0,1% vaxtar eins og fyrri spár gerðu ráð fyrir. Þá er einnig gert ráð fyrir að samdráttur meðal OECD-ríkja verði minni í ár en áður var talið, eða rúm 4% í stað 4,3%.
  • Svíar og Finnar hafa staðfest lán til Íslands upp á 700 m. dollara og 500 m. dollara. Þetta er liður í samnorrænni lánveitingu til Íslands sem mun í það heila nema um 2,5 mö. dollara.
  • Munur á opinberu gengi krónu og gengi á aflandsmarkaði hefur minnkað í vikunni. Krónan hefur styrkst á aflandsmarkaði, einkum gagnvart evru, en lítið breyst hér heima.
  • Fjöldi erlendra fjárfesta hefur lýst áhuga á að fjárfesta í Sjóvá þegar það verður sett í sölu, sem að líkum verður í haust. Þetta er jákvætt og bendir til þess að erlendir aðilar sjái tækifæri í íslensku viðskipta- og atvinnulífi.
Góða helgi.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024