Viðskiptaráð Íslands

Bjartsýni í vikulok

Í ljósi mikils vægis neikvæðra frétta undanfarnar vikur og mánuði er ekki úr vegi að minna á það sem vel gengur. Viðskiptaráð mun því endrum og eins draga saman það helsta sem telst til jákvæðra frétta, stórra sem smárra, innlendra sem erlendra. Hér er eingöngu um stutta samantekt að ræða, sem eingöngu hefur þann tilgang að minna á að þrátt fyrir erfitt efnahagsástand hérlendis og erlendis er margt á réttri leið og því má ekki gleyma. Það er von Viðskiptaráðs að áður en um of langt líður horfi til betri vegar og samantekt af þessu tagi verði óþörf.

• Lánasamningur að andvirði 2,5 ma. kr. við Svía, Norðmenn, Dani og Finna var undirritaður í gær. Samkvæmt tilkynningu forsætisráðuneytisins er lánið þáttur í eflingu gjaldeyrisvaraforðans.
• Vöruskipti voru jákvæð um 8,7 ma. kr. í júní skv. bráðarbirgðatölum Hagstofunnar. Maí var níundi mánuðurinn í röð þar sem afgangur var af vöruskiptum og virðist sú þróun því ætla að halda áfram.
• Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði í vikunni sem leið, en hækkun vísitölunnar á öðrum ársfjórðungi nam um 21% og er það fyrsta hækkunin milli fjórðunga síðan 2007.
• Lífeyrissjóðirnir eru reiðubúnir að veita allt að 100 mö. kr. til opinberra framkvæmda á næstu fjórum árum.
• Hugsanlegt er að tveir ríkisbankanna verði að hluta eða að fullu komnir í eigu erlendra aðila innan skamms, skv. viðskiptaráðherra en efnahagsreikningar nýju bankanna eiga að liggja fyrir 17. júlí næstkomandi.
• Innlendur skuldabréfamarkaður heldur áfram að dafna, en júní mánuður var veltumesti mánuðurinn með skuldabréf á þessu ári.
• Erlendir aðilar sýna innlendum fyrirtækjum áhuga, en mikill áhuga er á kaupum á hlut OR og Hafnarfjarðarbæjar í HS Orku.
• OECD telur að efnahagslægðin í heiminum sé að ná botni og að líkur séu á að birta muni til fyrr en áður var talið, en þetta kom fram í nýlegri skýrslu stofnunarinnar um efnahagsmál í heiminum.
• Ríkissjóði hefur gengið vel að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa, en skuldabréfaútgáfa Lánasýslunnar nemur 128 mö. kr. sem er næstum jafn mikið og ráðgert var fyrir árið allt.
• Botni á íbúðaverði vestanhafs hefur hugsanlega verið náð, er þetta mat sérfræðinga opinberu íbúðalánasjóðana þarlendis.
• Mikið skrið er í frumkvöðlastarfsemi hérlendis, stöðug sókn er í Hugmyndahús háskólanna og Hugmyndaráðuneytið, en á þriðja hundrað manns hafa nýtt sér þjónustu þeirra og er svo komið að nokkur fyrirtæki hafa þegar verið stofnuð.
• Í vikunni sem leið fór hitinn í fyrsta sinn yfir 20 gráður á árinu.  Líkur eru á það gerist oftar næstu daga, sem ætti að gleðja landann sem nú flykkist í sumarfrí.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024