Viðskiptaráð Íslands

Bjartsýni í vikulok

Í ljósi mikils vægis neikvæðra frétta undanfarnar vikur og mánuði er ekki úr vegi að minna á það sem vel gengur. Viðskiptaráð mun því endrum og eins draga saman það helsta sem telst til jákvæðra frétta, stórra sem smárra, innlendra sem erlendra. Hér er eingöngu um stutta samantekt að ræða, sem eingöngu hefur þann tilgang að minna á að þrátt fyrir erfitt efnahagsástand hérlendis og erlendis er margt á réttri leið og því má ekki gleyma. Það er von Viðskiptaráðs að áður en um of langt líður horfi til betri vegar og samantekt af þessu tagi verði óþörf.
  • Ný ríkisstjórn hefur tekið til starfa og lagt fram 100 daga áætlun þar sem ýmsar aðgerðir til handa íslenskum heimilum og fyrirtækjum eru lagaðar til.
  • Áætlað er að leggja fram þingsályktunartillögu um aðild að ESB í sumar samkvæmt málefnasamningi nýrrar ríkistjórnar.
  • Velta í dagvöruverslun jókst um 1,1% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra. Þetta er í fyrsta skipti sem aukning er í dagvöruverslun á milli ára síðan um mitt síðasta ár.
  • Íbúðalánasjóður hefur lækkað vexti á útlánum sínum í kjölfar þriðja útboðs sjóðsins á árinu. Þetta bendir til aukinnar eftirspurnar á fjármagnsmarkaði og það eru góð tíðindi fyrir íslenskt atvinnulíf.
  • Fjármálaráðuneytið spáir hagvexti á næsta ári samkvæmt nýrri þjóðhagsspá. Reiknað er með skammvinnum samdrætti og að strax á næsta ári verði hjól atvinnulífsins farin að snúast á nýjan leik sem mun skila hagvexti upp á 0,5%.
  • Gengi krónu á aflandsmarkaði nálgast áfram gengið á innlendum markaði. Þannig er gengi evru komið vel undir 200 krónur á aflandsmarkaði í fyrsta sinn síðan gjaldeyrishöft voru sett á.
  • Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst í apríl og nemur nú 414 milljörðum. Jafnframt eru horfur á að gjaldeyrisforðinn eflist nokkuð á næstu vikum.
  • Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur hækkað um rúm 3% í þessari viku og stendur nú í um 670 stigum.
  • Velta á íslenskum skuldabréfamarkaði hefur aukist gífurlega undandarið. Þetta bendir til þess að fjárfestar séu í auknum mæli að færa sig úr innlánum yfir í verðbréf. Að sama skapi hefur almenn krafa lækkað mikið undanfarið.
  • Lausum störfum fjölgaði í síðasta mánuði og hafa ekki verið fleiri síðan 2006. Í dag eru 687 laus störf auglýst hjá vinnumiðlunum og bendir það til þess að spurn sé eftir vinnuafli á Íslandi í dag.
  • Aflaverðmæti íslenskra fiskiskipa jókst á fyrstu tveimur mánuðum ársins, en það nam tæpum 16 milljörðum í ár samanborið við rúma 12 milljarða á sama tímabili í fyrra.
  • Ísland keppir til úrslita í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva eftir glæsilegan flutning Jóhönnu Guðrúnar í undanúrslitum á þriðjudag. Áfram Ísland!
Góða helgi.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024