Viðskiptaráð Íslands

Misráðnar leiðir í skattamálum

Stjórnvöld hafa nú kynnt ákvörðun sína um leiðir til aukinnar tekjuöflunar ríkissjóðs.

Jákvæðu tíðindin við útfærsluna sem kynnt var í gær felast í þeirri staðreynd að heildaraukning skattheimtu er minni en upphaflega var gert ráð fyrir. Samanlagðar tekjur af almennum tekjuskatti einstaklinga og fjármagnstekjur eru þannig áætlaðar 117 ma.kr. í stað upphaflegra áætlunar um 143 ma.kr. skattheimtu. Einnig hafa áætlanir um auðlinda- og orkuskatt verið endurskoðaðar til lækkunar.

Þrátt fyrir þetta er fyrirliggjandi endurskoðun skattkerfisins til mikils vansa og ljóst er að verulega mun draga úr samkeppnishæfni þess og skilvirkni. Viðskiptaráð hefur lagt áherslu á að sjálfbærni í ríkisfjármálum náist fyrst og fremst með aukinni skilvirkni og aðhaldi í ríkisrekstri, minni þjóðhagslegri sóun vegna ríkisumsvifa og breikkun þeirra skattstofna sem treyst hefur verið á.

Helstu athugasemdir Viðskiptaráðs við skattaleiðir stjórnvalda eru eftirfarandi:

  • Fjölþrepa skattlagning launatekna er hvorki til þess fallin að efla tekjugrunn hins opinbera né hraða því endurreisnarstarfi sem framundan er í íslensku efnahagslífi. Slíkt kerfi leiðir sjálfkrafa til hækkunar jaðarskatta og auka þannig hvata til undanskota og skattsvika auk þess sem þeir draga úr hvata til aukins vinnuframlags og verðmætasköpunar. Ógagnsæi í rekstri og umfangi hins opinbera eykst einnig til muna og kostnaður vegna umsýslu tengdri skattamálum myndi samhliða aukast til muna samanborið við einfaldara kerfi.
  • Frekari hækkun tryggingagjalds er óviðunandi. Mannfrekar þjónustugreinar bera mestan skaða af breytingum en ljóst er að með þessu er kostnaður atvinnurekenda við hvert starf aukinn til muna. Hækkun tryggingagjalds samhliða launahækkunum vegna nýsamþykktra kjarasamninga mun reynast fjölda fyrirtækja þungur ljár í þúfu. Þetta á ekki síst við um minni og meðalstór fyrirtæki, en eins og Viðskiptaráð hefur bent á verður megnið af verðmætum samfélagsins til innan slíkra fyrirtækja.
  • Frekari hækkun fjármagnstekjuskatts er afar óskynsamleg í ljósi ríkjandi aðstæðna. Þörf fyrir uppbyggingu fjármagnsstofna og erlenda fjárfestingu hefur aldrei verið meiri og yfirvofandi breytingar vega að þessu. Mikilvægt er að gera greinarmun á venjulegum launatekjum og fjármagnstekjum enda er eðli þessara skattstofna afar ólíkt.
  • Eignaskattar líkt og boðaðir hafa verið eru einnig óheppilegir, hvort sem þeir eru lagðir til skamms eða langs tíma. Auk þess sem þeir vega að fjárfestingaumhverfi á Íslandi er það velkunn staðreynd að með eignasköttum er sama fjármagn margskattlagt. Þetta letur fólk til sparnaðar, dregur úr virkni fjármagnsmarkaða og dregur úr vilja frumkvöðla til áhættufjárfestinga. Allir umræddir þættir eru til þess fallnir að draga úr hraða endurreisnar hagkerfisins.
  • Æskilegra hefði verið að miða að einfaldari breytingum á óbeinum sköttum. Umræddar breytingar leggjast með mismunandi hætti á atvinnugreinar og skekkja því samkeppnisstöðu þeirra, auk þess sem flækjustig í tengslum við virðisaukaskatt eykst verulega.

Eins og sjá má hefði mátt vanda betur til verks og ljóst er að breytt skattaumhverfi mun draga úr samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu samhengi. Í kjölfar efnahagsþrenginga líkt og nú standa yfir er veruleg hætta á varanlegum fólks- og fjármagnsflótta og breytingar af þessu tagi eru til þess fallnar að ýta frekar undir slíka þróun.

Hagfellt skattkerfi er einn helsti grundvöllur þess að bati hagkerfisins verði sem skjótastur. Í stað þess að reyna að taka sem stærsta sneið af kökunni ættu stjórnvöld þess í stað að einbeita sér að því að næra og byggja upp hagkerfið til að kakan geti stækkað sem fyrst á nýjan leik. Með því má verja störf, almenn lífskjör og sjálfbærni hagkerfisins til lengri tíma.

Tengiliðir við fjölmiðla:

Finnur Oddsson
finnur@vi.is
s. 510-7100

Frosti Ólafsson
frosti@vi.is
s. 822 8580

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024