Aðalræðumaður á Viðskiptaþingi 2010 er Dr. Richard Vietor prófessor við Harvard Business School, en hann mun í erindi sínu fjalla um uppbyggingu efnahagsáætlana sem miða að samkeppnishæfni þjóða. Dr. Vietor kennir alþjóða stjórnmála- og hagfræði við Harvard Business School, en hann skrifaði m.a. bókina How Countries Compete: Strategy, Structure and Government in the Global Economy og hefur hann einnig stundað viðamiklar rannsóknir og ráðgjöf á sviði stefnumótunar stjórnvalda og viðskiptalífs.
Leiðin að bættri stöðu landa í alþjóðlegu umhverfi
Með erindi sínu mun Vietor veita gestum þingsins góða mynd af leiðum til endurskipulagningar efnahagslífs og hlutverki stjórnvalda við uppbyggingu efnahagsáætlana. Í áðurnefndri bók fjallar Dr. Vietor m.a. um að stefnumótun stjórnvalda skipti sköpum í að varða veginn að bættri stöðu landa í alþjóðlegu umhverfi, með áherslu á leiðir uppbyggingar kröftugs atvinnulífs, hagvaxtar og bættra lífskjara.
Dr. Vietor hefur einnig ritað fjöldamörg svokölluð raundæmi (e. business case studies) fyrir Harvard um stefnumótun í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs, regluverk í samgöngumálu, áherslur í orkumálum, o.fl. Auk þess hefur hann verið til ráðgjafar við stefnumótun ríkisstjórna og fyrirtækja víða um heim. Nánari upplýsingar um Dr. Vietor má nálgast hér og upplýsingar um fyrrnefnda bók hans má finna hér.
Er framtíð fyrir íslenskt atvinnulíf?
Þingið fer fram nú á miðvikudag (17. febrúar) á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni Er framtíð fyrir íslenskt atvinnulíf? - Rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni. Nú þegar hafa um 300 þátttakendur skráð sig á þingið og er gert ráð fyrir húsfylli, við hvetjum því áhugasama til þess að skrá sig hér.