Hátt í 350 manns eru skráðir á árlegt Viðskiptaþing Viðskiptaráðs sem haldið verður á morgun á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni „Endurreisn hagkerfisins - horft til framtíðar“. Skráningu á þingið líkur í dag kl. 18:00.
Eins og komið hefur fram þá verða erindi flutt af Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, Erlendi Hjaltasyni formanni Viðskiptaráðs og Dr. Pedro Videla prófessor í hagfræði við IESE viðskiptaháskólann í Barcelona.
Að loknum framsögum verða umræður um áherslur stjórnmálaflokkana til framtíðar þar sem fulltrúar allra flokka á Alþingi taka þátt. Þar munu þeir verða inntir eftir svörum við spurningum er varða helstu hagsmunamál íslenskra fyrirtækja og heimila þegar horft er til framtíðar. Þessar spurningar eru:
1. Hver eiga umsvif hins opinbera að vera og umfang þátttöku í atvinnurekstri?
2. Hvað á að gera til að koma á jafnvægi í fjármálum hins opinbera?
3. Hvaða stefnu ætti að taka í utanríkis- og peningamálum til að koma á varanlegum efnahagslegum stöðugleika?
Þar á eftir verða pallborðsumræður um viðbrögð og viðhorf viðskiptalífsins, en í þeim umræðum taka þátt þau Jón Sigurðsson forstjóri Össurar, Kristín Pétursdóttir forstjóri Auðar Capital, Svava Grönfeldt rektor Háskólans í Reykjavík, Tómas Már Sigurðsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls og Vilhjálmur Þorsteinsson stjórnarformaður CCP. Umræðum stjórnar Bogi Ágústsson.
Viðskiptaráð mun gefa út skýrslu í tengslum við Viðskipaþingið og ber hún heitið „Endurreisn hagkerfisins - horft til framtíðar“. Gestir fá eintak af skýrslunni á þinginu.
Upplýsingar um dagskrá þingsins og skráningu má nálgast hér. Skráning fer einnig fram í síma 510-7100.