Í síðustu viku birti utanríkisráðherra tilkynningu þess efnis að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja Evrópusambandsins. Þessi ákvörðun byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar síðastliðinn þriðjudag, sem felur í sér að núverandi stjórnvöld hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við ESB á nýjan leik.
Það er mat Viðskiptaráðs Íslands að þrátt fyrir tilkynningu utanríkisráðherra sé staða aðildarumsóknar Íslands sú sama og verið hefur frá því ný ríkisstjórn tók við völdum. Jafnframt telur Viðskiptaráð að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli séu gagnrýniverð. Telji núverandi ríkisstjórn rétt að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið ætti slíkt að gerast samkvæmt ríkjandi stjórnskipulagi og stjórnmálalegum hefðum.
Verklag sem þetta skapar hættulegt fordæmi og eykur enn á þann stjórnmálalega óstöðugleika sem einkennt hefur Ísland frá haustmánuðum 2008. Ef ætlunin er að efla lífskjör á Íslandi er grundvallaratriði að efnahagslegur stöðugleiki aukist. Þverpólitísk sátt um aðferðafræði og málefnaleg umræðuhefð eru hryggjarstykki þess markmiðs.
Fyrir um ári síðan samþykkti stjórn Viðskiptaráðs samhljóða ályktun þess efnis að ekki væri rétt að slíta aðildarviðræðum við ESB á þessum tímapunkti. Þar kom fram að skynsamleg sáttaleið í þessu erfiða máli væri að gera hlé á aðildarviðræðum við ESB til loka kjörtímabilsins í stað þess að slíta þeim.
Það er mat stjórnar Viðskiptaráðs að sú leið myndi skapa grundvöll fyrir stjórnvöld til að vinna að uppbyggingu efnahagslífsins næstu árin í breiðari sátt við aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila en ella. Nálgun af þessu tagi væri ennfremur í takt við markmið stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aukinn samtakamátt og samvinnu í helstu verkefnum þjóðfélagsins. Þar segir:
„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið. Framfarir og bætt lífskjör á Íslandi hafa byggst á samvinnu og samheldni og til framtíðar munu Íslendingar halda áfram að leysa sameiginlega af hendi helstu verkefni þjóðfélagsins.“
Fyrirliggjandi tilkynning utanríkisráðherra og sú aðferðafræði sem samþykkt ríkisstjórnarinnar felur í sér gengur þvert á þessi orð.