Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri og fulltrúi heiðursverðlaunahafans MS, Eliza Reid, forsetafrú Íslands og Bragi Valdimar Skúlason, eigandi og fulltrúi Brandenburg, verðlaunahafa hvatningarverðlaunanna 2018
Sannkölluð hátíðarstund var í húsakynnum Arion Banka í morgun þar sem hvatningarverðlaun viðskiptalífsins um eftirtektaverða notkun á íslenskri tungu voru veitt í fyrsta skipti, á degi íslenskrar tungu.
Viðskiptaráð Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð kölluðu eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna viðskiptalífsins um eftirtektaverða notkun á íslenskri tungu á dögunum.
Dómnefnd hvatningarverðlaunanna taldi sérstaklega þörf á að bæta við heiðursverðlaunum til þess að þakka Mjólkursamsölunni fyrir framtak sitt um áratugaskeið við að hefja móðurmálið til vegs og virðingar, og um leið hvetja fyrirtækið áfram til góðra verka á þessu sviði í framtíðinni. Mjólkursamsalan hlaut því fyrstu heiðursverðlaun hvatningarverðlaunanna.
Sjö fyrirtæki voru sérstaklega heiðruð fyrir framlag sitt í þágu íslenskunnar; Brandenburg, Icelandair Hotels, Icelandair, IKEA, ÍSAL, Sýn og Toyota á Íslandi.
Hvatningarverðlaun ársins 2018 hlaut Brandenburg fyrir einstaklega vandaða, skapandi, frumlega, skemmtilega og eftirtektaverða notkun á íslenskri tungu. Brandenburg var jafnframt það fyrirtæki sem fékk flestar tilnefningar.
Dagskráin var einkar hátíðleg eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Þórarinn Eldjárn flutti hugvekju um íslenska tungu, Eliza Reid, forsetafrú Íslands tók til máls og gaf íslensku þjóðinni nýyrðið ,,ókunningi" ásamt því að afhenda hvatningarverðlaunin. Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Ásta S. Fjeldsted, stýrði athöfninni og Ragnheiður Gröndal flutti Íslenskuljóð ásamt Guðmundi Péturssyni og tryggði endanlega að gestir færu svífandi út í daginn með íslenskuna efsta í huga.
Dómnefnd hvatningarverðlaunanna skipuðu Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor hjá Árnastofnun og Hrafn Loftsson, dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Hér má lesa ræðu Katrínar Olgu Jóhannesdóttur, formanns Viðskiptaráðs og dómnefndar með rökstuðningi