Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, var gestur í Morgunútgáfunni í dag og ræddi þar um nýja skoðun um fjármál hins opinbera. Fram kom að útlit er fyrir að ríkið geti nánast greitt upp skuldir sem urðu til við hrunið. Frosti sagði það engu að síður vera þannig að oft er erfitt að stýra hagkerfi í uppsveiflu. Ríkið getur greitt upp skuldið, lækkað skatta eða aukið opinber útgjöld.
Í skoðuninni kemur fram að undir þeim kringumstæðum sem eru til staðar núna ættum við að leggja áherslu á að greiða niður opinberar skuldir og draga tilbaka skattahækkanir sem hafa átt sér stað á undanförnum árum. Helstu ástæður fyrir þessu eru núverandi kringumstæður í hagkerfinu. Við erum í uppsveiflu og þá er eðlilegt að ríkisfjármálin auki ekki þá þenslu sem er til staðar.
Annars vegar eru tilteknar þær skattahækkanir sem hafa átt sér stað á undanförnum árum og hins vegar með hvaða hætti aðlögunin átti sér stað í kjölfar hruns. Samkvæmt greiningu Viðskiptaráðs eru rúmlega 2/3 af brúun hallans sem átti sér stað í gegnum aukna skatta og því meira verk að vinna þar til að komast aftur á þann stað sem við vorum á áður. Bent er á tvo skatta sem væri skynsamlegt að lækka á þessum tímapunkti, tryggingagjald og fjármagnstekjuskattur.