Viðskiptaráð Íslands

Fleirum gert kleift að eignast húsnæði

Viðskiptaráð Íslands fagnar breytingu umhverfis- og auðlindaráðherra á byggingareglugerð sem undirrituð var í gær. Með breytingunni eru stór skref stigin í átt til lækkunar fasteignaverðs – sér í lagi þegar kemur að smærri íbúðum. Stjórnvöld hafa með þessu greitt fyrir því að fleiri einstaklingar geti eignast húsnæði á komandi árum.

Stærsta tækifæri stjórnvalda til lækkunar fasteignaverðs
Í nýlegu erindi hagfræðings Viðskiptaráðs kom fram að stærsta tækifæri stjórnvalda til að lækka íbúðaverð fælist í að stuðla að auknu framboði nýrra íbúða. Veigamikill þáttur í því er að einfalda byggingareglugerð og draga úr öðrum regluverkshindrunum sem auka kostnað byggingaraðila. Þetta á sérstaklega við þegar kemur að smærri íbúðum, en kostnaður við byggingu þeirra hefur verið aukinn umtalsvert með íþyngjandi reglum á undanförnum árum.

Með einföldun byggingareglugerðar hafa stjórnvöld brugðist rétt við umræðunni um að gera þurfi fleirum kleift að eignast húsnæði. Reglugerðin gerði byggingu smærri íbúða afar óhagkvæma, til dæmis með nákvæmum formkröfum um lágmarksstærðir rýma. Eftir breytinguna eru þess í stað sett inn markmið sem veita byggingaraðilanum frelsi við útfærslu hönnunar svo lengi sem þau eru uppfyllt.

Fjölmörg tækifæri til umbóta
Viðskiptaráð og Samtök iðnaðarins réðust í kortlagningu byggingarferlisins hérlendis í árslok 2015. Þar kom fram að flókið regluverk yki bæði tíma og kostnað sem fer í byggingu húsnæðis. Þetta flækjustig leiðir á endanum til hærra húsnæðisverðs.

Samtökin hafa ítrekað kalað eftir einfaldara regluverki og breyttri stofnanaumgjörð. Meðal annars ætti að veita Mannvirkjastofnun skýrt íhlutunarvald gagnvart byggingarfulltrúaembættum, samræma reglur um lóðaúthlutanir á landsvísu, fækka atriðum sem farið er yfir við afgreiðslu byggingarleyfis, heimila húsbyggjanda að sinna jafnframt hlutverki byggingarstjóra í sérbýli, þrepaskipta kvöðum um skil hönnunargagna, draga úr umframkröfum í byggingareglugerð, auka notagildi áfrýjunarréttar, einfalda gjaldheimtu sveitarfélaga og fækka sjálfstæðum úttektum.

Viðskiptaráð fagnar því sérstaklega sem fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins um að undirbúningur sé hafinn að lagabreytingum til að einfalda stjórnsýslu byggingarmála. Slík einföldun myndi lækka byggingarkostnað enn frekar og styðja við markmið um að auðvelda einstaklingum hérlendis að koma þaki yfir höfuðið.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024