Háskólinn í Reykjavík er í efsta sæti í mati á hlutfallslegum viðmiðum rannsókna, þriðja árið í röð, og áfram efstur íslenskra háskóla.
Í gær birti Times Higher Education uppfærðan lista yfir bestu háskóla heims fyrir árið 2022 þar sem Háskólinn í Reykjavík er í efsta sæti í mati á hlutfallslegum viðmiðum rannsókna, þriðja árið í röð. Þá er HR áfram efstur íslenskra háskóla og heldur stöðu sinni í sæti 301-350.
Mikið er horft til lista Times Higher Education við mat á alþjóðlegu háskólastarfi en hann byggir meðal annars á mati á kennslu, rannsóknum, alþjóðastarfi og samstarfi við atvinnulífið.
Í frétt á vef HR er haft eftir Ragnhildi Helgadóttur, nýjum rektor skólans:
„Þessi árangur kemur til af því að hér er frábært starfsfólk sem hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að efla rannsóknir og annað vísindastarf, samhliða öflugu gæðastarfi við uppbyggingu háskólanáms.
Það er ekki hægt annað en að vera ánægð með stöðu HR á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla í heimi. Vísindafólk við háskólann er ótrúlega áhrifamikið á heimsvísu og af því erum við virkilega stolt. Þessi árangur kemur til af því að hér er frábært starfsfólk sem hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að efla rannsóknir og annað vísindastarf, samhliða öflugu gæðastarfi við uppbyggingu háskólanáms.“
Viðskiptaráð Íslands, sem er meirihlutaeigandi HR í gegnum Menntasjóð VÍ, fagnar að vonum þessari staðfestingu á starfi skólans og óskar starfsfólki, nemendum og íslensku samfélagi til hamingju með þennan frábæra árangur.