Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps um rafræna fyrirtækjaskrá sem gera mun einstaklingum og lögaðilum kleift að skrá félög með rafrænum hætti.
Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga og fagnar því að til standi að einfalda regluverk atvinnulífsins. Rafræn fyrirtækjaskrá felur í sér töluverða einföldun og hagræði við stofnun og skráningu fyrirtækja. Fram kemur í frumvarpinu að með innleiðingu skrárinnar verði hægt að skrá félög og breytingar samdægurs í stað þess að það taki sjö til tíu virka daga. Jafnframt þarf sérfræðingur ríkisskattstjóra eingöngu að lesa yfir tvö atriði í stað 160 atriða sem skoða þarf í dag þegar einkahlutafélag er stofnað þar sem notuð eru stofnskjöl ríkisskattstjóra. Augljóst er því að bæði mun atvinnulífið hagnast af skránni og einnig mun hún skila aukinni skilvirkni innan stjórnsýslunnar.