Mynd: Fulltrúar stofnfélaga ásamt gestum og nýrri stjórn ráðsins.
Á þriðjudag, 6. júní 2017, fór fram stofnfundur Japansk-íslenska viðskiptaráðsins í embættisbústað sendiherra Japans í Reykjavík. Á stofnfundinum var Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota og stjórnarformaður Icelandair Group, kjörinn formaður ráðsins. Stofnfélagar eru um 30 fyrirtæki sem eiga í fjölbreyttum viðskiptum milli landanna tveggja.
Meðal þeirra eru sjávarútvegsfyrirtæki, matvælafyrirtæki, bílainnflytjendur, orkufyrirtæki, raftækjainnflytjendur, tæknifyrirtæki og fyrirtæki í ferðaþjónustu. Gestir á stofnfundinum voru tveir af fyrrum sendiherrum Íslands í Tokýó, þeir Ingimundur Sigfússon og Stefán Lárus Stefánsson, og framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Ásta S. Fjeldsted.
Sendiherra Japans á Íslandi, Yasuhiko Kitagawa, flutti opnunarávarp og fór m.a. yfir þann mikla áhuga sem ríkir á auknum samskiptum á milli landanna. Hann fagnaði því að ráðið væri stofnað á þessum tímamótum en á síðasta ári voru 60 ár liðin frá því að stofnað var til stjórnmálasambands milli ríkjanna. Í ávarpinu ræddi hann einnig samning um gagnkvæm tímabundin atvinnuréttindi og minnti hann á að nýverið var gengið frá samkomulagi um efni tvísköttunarsamnings milli Íslands og Japans. Hann kom einnig inn á að síðustu ár hefði verið rætt um mögulegan fríverslunarsamning og loftferðarsamning milli ríkjanna sem myndi gagnast fyrirtækjum í báðum löndum.
Úlfar Steindórsson ávarpaði fundinn og fagnaði því að góð viðskiptatengsl landanna væru formgerð í hinu nýja Japansk-íslenska viðskiptaráði. Hann talaði um að eitt af hlutverkum slíkra millilanda viðskiptaráða væri að efla tengsl fyrirtækja milli landanna ásamt því að vera vettvangur til skoðanaskipta. Starf slíkra ráða geti stuðlað að nýjum viðskiptatækifærum og aukinni markaðsþekkingu, sérstaklega í tilfellum fjarlægari landa. Úlfar lýsti ánægju yfir því að verið væri að ljúka tvísköttunarsamningi á milli landanna og að mikill áhugi væri því að koma á fríverslunarsamningi og loftferðasamningi á milli Íslands og Japans eins fljótt og mögulegt væri.
Þá kom hann einnig inn á að ráðið muni stuðla að eflingu tengsla milli stjórnvalda, viðskiptalífs og hagsmunaaðila á Íslandi og í Japan.
Undirbúningshópur hafði unnið að stofnun Japansks-íslenska viðskiptaráðsins um nokkurt skeið, í góðu samstarfi við fulltrúa fjölbreyttra fyrirtækja.
Í undirbúningshópnum sátu Ársæll Harðarson (Icelandair), Sato Akira (sendiráði Japans), Ragnar Þorvarðarson (utanríkisráðuneytinu) og Stefán Atli Thoroddsen (formaður Íslensk-japanska félagsins). Ársæll og Ragnar taka sæti í fyrstu stjórn ráðsins, auk þeirra Erlu Friðriksdóttur hjá Íslenskum æðadúni og Arnljóti Bjarka Bergssyni hjá Matís sem einnig er formaður félags Japansmenntaðra. Fyrir er starfrækt íslenskt viðskiptaráð í Japan sem stofnað var árið 2005, en formaður þess er Bolli Thoroddsen.