Viðskiptaráð Íslands

Kirkjur, brandarar og menningarverðmæti

Núverandi og fyrrverandi sóknarnefndarformenn Hrafnseyrarkirkju sendu frá sér tilkynningu þann 27. janúar síðastliðinn vegna úttektar Viðskiptaráðs á fasteignarekstri ríkissjóðs. Í tilkynningunni kalla formennirnir tillögu ráðsins um að ríkissjóður losi um eignarhald sitt á Hrafnseyrarkirkju „[…] brandara dagsins, því ríkissjóðurinn okkar á ekkert í Hrafnseyrarkirkju og hefur aldrei átt. Hvorki spýtu né nagla!“

Þinglýsing dregist um 107 ár
Af þessu tilefni telur Viðskiptaráð rétt að árétta að skráður eigandi Hrafnseyrarkirkju samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár er ríkissjóður Íslands. Hrafnseyrarnefnd er skráð sem umráðandi kirkjunnar en þinglýstur eigandi hennar er íslenska ríkið.

Í tilkynningu formannanna er fullyrt að árið 1910 hafi sóknarpresturinn á Hrafnseyri afhent Hrafnseyrarsöfnuði kirkjuna til eignar og varðveislu. Þessari afhendingu hefur ekki ennþá verið þinglýst. Því má spyrja sig hvort hinn eiginlegi brandari sé sá að Hrafnseyrarsöfnuður hafi á 107 árum ekki haft tíma til að ganga frá þessari þinglýsingu.

Trúfélög reki sínar byggingar sjálf
Tilkynning formannanna er send út í kjölfar úttektar Viðskiptaráðs á umsvifum ríkissjóðs á fasteignamarkaði hérlendis. Þar kemur meðal annars fram að ríkissjóður er skráður eigandi 22ja kirkjubygginga á landsbyggðinni á meðan kirkjur á höfuðborgarsvæðinu eru í eigu þjóðkirkjunnar.

Viðskiptaráð lagði til að þjóðkirkjan tæki yfir eignarhald þessara bygginga. Ekki var gert ráð fyrir tekjum ríkissjóðs vegna slíkrar tilfærslu en á móti tæki þjóðkirkjan við rekstri og viðhaldi þeirra. Hugsunin er sú að trúfélög starfræki sínar byggingar sjálf, líkt og nú þegar tíðkast á höfuðborgarsvæðinu.

Í sumum tilfellum er breytingin lítil í reynd. Biskup Íslands hefur bent á að flestar þær kirkjur sem nefndar eru í úttekt Viðskiptaráðs hafa verið notaðar og reknar á vegum sóknanna sem þær tilheyra. Í þeim tilfellum þurfi að leiðrétta skráningar svo eignarhald liggi hjá þeim sóknum sem nota kirkjurnar og sjá um rekstur þeirra og viðhald.

Menningarverðmæta áfram gætt
Í úttekt ráðsins er lagt til að ýmsar byggingar sem hafa sögu- eða menningarlegt gildi verði áfram í eigu ríkisins. Undir þann flokk falla til dæmis byggingar líkt og Þjóðminjasafn Íslands, Gljúfrasteinn, Hæstiréttur og Þjóðleikhúsið. Minjastofnun Íslands gerði athugasemd við að kirkjur væru ekki felldar undir þann flokk.

Viðskiptaráð tekur undir að sögu- og menningarleg verðmæti þeirra kirkna sem um ræðir eru mikil. Ráðið telur hins vegar ekki leiða sjálfkrafa af því að byggingarnar skuli vera í eigu ríkissjóðs. Til dæmis má nefna að hvorki Dómkirkjan í Reykjavík né Hallgrímskirkja eru í eigu ríkissjóðs þrátt fyrir óumdeild verðmæti þeirra í menningar- og sögulegu samhengi.

Að mati ráðsins er þjóðkirkjunni fyllilega treystandi til að fara með eignarhald, rekstur og viðhald allra kirkna sinna. Auk þess eru byggingar sem náð hafa 100 ára aldri á Íslandi friðaðar. Samkvæmt lögum um menningarminjar er óheimilt að raska, spilla eða breyta slíkum byggingum, rífa þær eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar. Tilfærsla á eignarhaldi kirknanna til þjóðkirkjunnar myndi engu breyta um þá friðun.

2 þús. fm. af 883 þús. fm. eignasafni
Viðskiptaráð fagnar umræðu um eignarhald ríkisins á kirkjum en bendir á að um einungis 2 þúsund fermetra af 883 þúsund fermetra eignasafni er að ræða. Efnahagsleg áhrif af tilfærslu þessara kirkna til þjóðkirkjunnar væru því lítil.

Megintillagan í úttekt ráðsins snýr að skrifstofuhúsnæði ríkissjóðs á höfuðborgarsvæðinu. Þar er um að ræða 108 þúsund fermetra af verðmætu húsnæði sem vísbendingar eru um að sé vannýtt.

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að selja það húsnæði á almennum markaði. Söluandvirðið mætti nýta til niðurgreiðslu skulda og lækka þannig vaxtakostnað ríkisins. Jafnframt myndu stofnanir í kjölfarið fá aukinn hvata til að nýta húsnæðiskost sinn betur en raunin er í dag. Hvort tveggja myndi auka hagkvæmni í opinberum rekstri.

Ljósmyndin er af Hrafnseyrarkirkju og er tekin af Ingunni H Nielsen. Myndina má nálgast á þessari slóð.

Tengt efni

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024

Stöðnun á grunnskólastigi - hátíðarræða við brautskráningu frá HR

Laugardaginn 22. júní útskrifuðust 692 nemendur frá Háskólanum í Reykjavík. Í …
24. júní 2024