Kristrún Frostadóttir hefur verið ráðin hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands. Kristrún tekur við starfinu af Birni Brynjúlfi Björnssyni sem hefur starfað sem hagfræðingur ráðsins síðastliðin þrjú ár. Kristrún mun hefja störf i lok mars.
Kristrún kemur til Viðskiptaráðs frá bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley. Þar hefur hún starfað sem sérfræðingur i greiningardeild, fyrst í New York og síðan í London. Sérsvið Kristrúnar í London sneri að greiningu á evrópskum netverslunarfyrirtækjum. Í New York sinnti hún greiningarvinnu í tengslum við bandarísk eignastýringar- og orkufyrirtæki.
Áður hefur Kristrún starfað meðal annars sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu og sem hagfræðingur í starfshóp á vegum forsætisráðuneytisins. Auk þess starfaði hún sem hagfræðingur í greiningardeild Arion banka árin 2011-2012.
Kristrún er með meistaragráðu i alþjóðafræðum frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum, með áherslu á hagstjórn og alþjóðafjármál, og meistaragráðu í hagfræði frá Boston-háskóla. Þá er hún með BS-próf í hagfræði frá Háskóla Íslands.