Viðskiptaráð fagnar þeim aðgerðum sem nýsköpunarráðherra kynnti í lok síðustu viku til að efla nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Nýsköpun er forsenda áframhaldandi hagsældar og því nauðsynlegt að stjórnvöld styðji við hana í hvívetna. Viðskiptaráð trúir því að hagvöxtur framtíðarinnar liggi í hugvitsdrifinni starfsemi og að viðbrögð við loftslagsbreytingum muni krefjast mikilla breytinga í samfélaginu sem óhjákvæmilega kallar á nýsköpun.
Tillögur ráðherra eru heilt yfir fallnar til þess að efla enn frekar umhverfi nýsköpunar á Íslandi. Lagt er til að veita auknu fjármagni í stuðning við efnileg fyrirtæki á snemmstigum með framlagi til vísisjóða (e. venture capital funds), krefjast aðkeyptra nýsköpunarlausna í ráðuneyti ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar og að Orkustofnun, sem heyrir undir ráðherra, opni gögn sín í þágu nýsköpunar. Hvetjum við aðra ráðherra til að horfa til samskonar tækifæra. Einnig verður hugveita ráðherra stofnuð, skipuð af frumkvöðlum, og heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísisjóðum auknar.
Viðskiptaráð kynnti í ársbyrjun 10 aðgerðartillögur til að efla nýsköpun í ritinu Nýsköpunarheit (sjá mynd). Þar má finna áherslur sem ríma afar vel við þau áform sem ráðherra hefur kynnt, einkum og sér í lagi þegar kemur að fjárfestingarsjóðnum Kríu. Að mati Viðskiptaráðs skiptir útfærsla sjóðsins miklu máli og mikilvægt að tækifærið verði nýtt til þess að tengja Ísland enn betur inn í alþjóðlegt umhverfi framtaksfjárfesta. Viðskiptaráð telur því mikilvægt að eitt skilyrði fyrir veitingu framlaga úr Kríu verði aðkoma reyndra erlendra vísisfjárfesta.
Mikilvægt er að hugað verði vel að framkvæmd aðgerðanna til að þær hafi sem mestan ávinning fyrir landsmenn alla. Þá má minna á að stuðningur við nýsköpun er síbreytilegt langhlaup rétt eins og nýsköpun er í eðli sínu. Ef markmið aðgerðanna nást er boltinn hjá atvinnulífinu sem mun þegar upp er staðið bera ábyrgðina á að drífa áfram nýsköpun – ábyrgð sem atvinnulífið mun sannarlega ekki hlaupast undan.