Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til þess að viðhalda stöðugu og öflugu hvatakerfi fyrir nýsköpun. Þetta kemur fram í umsögn ráðsins um drög að frumvarpi um breytingar á stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki. Mikilvægt er að tryggja að stuðningskerfið sé einfalt, skilvirkt og fyrirsjáanlegt.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi um breytingar á stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki. Með frumvarpinu er ætlunin að skýra framkvæmd og auka skilvirkni, en um er að ræða fyrsta hluta í endurskoðun á lögunum. Að mati Viðskiptaráðs er frumvarpið jákvætt skref í þeirri heildarendurskoðun sem hafin er á lögum um stuðningskerfi við nýsköpun. Mikilvægt er að tryggja að kerfið sé einfalt, skilvirkt og fyrirsjáanlegt svo fyrirtæki geti byggt starfsemi sína á traustum forsendum og gert langtímaáætlanir. Með endurskoðuninni gefst færi á að bæta reglur og framkvæmd laganna með hliðsjón af reynslu síðustu ára.
Koma þarf í veg fyrir óvissu í nýsköpunarstarfsemi
Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til þess að viðhalda stöðugu og öflugu hvatakerfi fyrir nýsköpun. Ráðið telur brýnt að lögð sé áhersla á fyrirsjáanleika og gagnsæi, sem er hvað mikilvægast fyrir umsækjendur. Benda má á að nýsköpunar- og þróunarstarfsemi er yfirleitt margra ára ferli og því þurfa nýsköpunarfyrirtæki að geta treyst á stuðning og byggt langtímaáætlanir sínar í traustu kerfi. Með því má koma í veg fyrir aukna óvissu á sviði þar sem hún er næg fyrir.
Í 6. gr. frumvarpsins er annars vegar kveðið á um að sameina skuli á einn stað ákvæði um aðkeypta vinnu og hins vegar að lögfest verði hámarkshlutfall aðkeyptrar vinnu. Að auki gerir frumvarpið ráð fyrir að aðkeypt þjónusta teljist aðeins styrkhæf sé um að ræða kaup á þjónustu milli ótengdra aðila. Slík afmörkun getur reynst takmarkandi í framkvæmd, þar sem telja má að fjölmörg nýsköpunarfyrirtæki nýti sér sérhæfða innviði eða sérþekkingu innan samstæðu, svo sem rannsóknarstofur, prófunaraðstöðu eða þróunarsetur. Að mati Viðskiptaráðs væri réttara að slík kaup gætu verið styrkhæf að gættum armslengdarsjónarmiðum og aukinni upplýsingaskyldu eftir atvikum, í stað þess að girða alfarið fyrir þau. Þá væri eðlilegt að hlutfallsþak á aðkeypta þjónustu tæki mið af verkefnisstigi eða eðli starfsemi fremur en að lögfest yrði fast 80% hámark. Með slíkri nálgun væri betur tekið tillit til mismunandi eðlis verkefna og breytilegra þarfa eftir þróunarstigi.
Þá leggst Viðskiptaráð ekki gegn því að frestur Rannís til að afgreiða umsóknir verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá til þess að mæta auknu álagi stofnunarinnar við úrvinnslu umsókna og að löggjöfin endurspegli raunhæfa þörf fyrir lengri málsmeðferð. Hins vegar geldur ráðið varhug við því að Rannís sé veitt nær opin heimild til þess að fara umfram fresti ef álag er mikið, með orðalaginu „að jafnaði.“ Með hliðsjón af mikilvægi fyrirsjáanleika er eðlilegt að umsækjendur viti fyrirfram hvenær megi vænta niðurstöðu varðandi umsókn og að stofnunin sé bundin af þeim tímafresti sem settur er í lögum.
Viðskiptaráð telur vert að benda á að kröfur samkvæmt 3. gr. frumvarpsins um að samstarfssamningur liggi fyrir við umsókn þegar um samstarfsverkefni er að ræða geti reynst íþyngjandi í framkvæmd. Samstarf innan nýsköpunar er oft og tíðum lifandi ferli og því verður löggjafinn að tryggja sveigjanleika og hæfilegan frest til úrbóta í umsóknarferli. Þá þarf að gæta þess að kröfur sem útfæra á í reglugerð um menntun, sérhæfingu og hæfni starfsmanna séu skýrar, hlutlægar og ekki háðar geðþótta.
Að virtum framangreindum athugasemdum hvetur Viðskiptaráð til þess að frumvarpið nái fram að ganga.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.