Viðskiptaráð Íslands

Samningur við ESB eykur samkeppni í matvælaframleiðslu

Viðskiptaráð fagnar nýjum samningi Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Samningurinn felur í sér aukningu tollfrjálsra heimilda (tollkvóta) fyrir innflutning nokkurra tegunda matvæla, fyrst og fremst alifugla-, svína-, og nautakjöts ásamt ostum. Þá eru tollkvótar fyrir útflutning auknir umtalsvert. Það er von ráðsins að í kjölfar samningsins verði fleiri skref stigin í átt að auknu viðskiptafrelsi og alþjóðaviðskiptum þegar kemur að matvælum hérlendis.

Ný sóknarfæri í útflutningi
Með samningnum skapast ný sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað. Svigrúm til tollfrjáls útflutnings matvæla til ríkja Evrópusambandsins verður aukið umtalsvert. Má þar helst nefna um 1.500 tonna viðbótarkvóta til útflutnings á lambakjöti (81% aukning) og 3.620 tonna viðbótarkvóta í tilfelli skyrs (ríflega tíföldun). Samningurinn eykur því möguleika innlendra matvælaframleiðenda til vöruútflutnings inn á evrópskan neytendamarkað.

Matvælaverð áfram hærra en annars staðar
Að framangreindu sögðu verður að teljast ólíklegt að samningurinn hafi veruleg áhrif til lækkunar matvælaverðs hérlendis. Hinir nýju tollkvótar verða, líkt og áður, seldir hæstbjóðanda af hálfu ríkisins í gegnum uppboðsferli. Samkvæmt áætlun Viðskiptaráðs gætu viðbótartekjur ríkissjóðs vegna útboða nýrra tollkvóta numið allt að 400 m.kr. á ári.1 Beinn ávinningur neytenda af hinum nýju tollkvótum minnkar sem þeirri upphæð nemur. Verð á tollvernduðum matvælum mun því að líkindum áfram haldast umtalsvert hærra en í öðrum ríkjum (mynd 1).

Alifugla- og svínarækt lítið skylt við landbúnað
Samfélagsleg rök fyrir tollvernd í landbúnaði eiga síður við um alifugla- og svínarækt. Dýrin eru ræktuð í verksmiðjum en ekki á bóndabýlum, þau eru alin upp á innfluttu fóðri en ekki innlendum jarðræktarafurðum og stór hluti starfseminnar fer fram í eða við þéttbýli. Greinarnar eiga því meira skylt við iðnaðarframleiðslu en landbúnað.

Viðskiptaráð hvetur því stjórnvöld til að stíga næsta rökrétta skref og afnema innflutningstolla í heild sinni í tilfelli alifugla- og svínakjöts. Með slíkri aðgerð má tryggja að aukin samkeppni á matvælamarkaði skili sér að fullu til neytenda í formi lægra verðs fyrir þær matvælategundir. 


1) Þar sem innlent verð á tollvernduðum matvælum er hærra heimsmarkaðsverði er gert ráð fyrir að tollkvótarnir verði fullnýttir og að sala í gegnum útboð eigi sér stað. Hámarkstekjur ríkissjóðs eru áætlaðar með því að margfalda mismuninn á innlendu verði og heimsmarkaðsverði með aukningu tollkvóta í tilfelli alifugla-, svína-, nautakjöts og osta. Áætla má að sú samtala marki hámark þess sem innflytjendur eru tilbúnir að greiða fyrir innflutning matvæla innan þessara tollkvóta.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024