Viðskiptaráð Íslands

Forðast skal tvöfalda skattlagningu kolefnis

Viðskiptaráð, ásamt fleiri samtökum, hafa tekið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir (ETS- og ETS2-kerfið). Samtökin leggja til að frumvarpið verði endurskoðað með áherslu á að forðast tvöfalda skattlagningu kolefnis, tryggja samkeppnishæfni atvinnulífs og verja neytendur fyrir verulegum kostnaðarhækkunum.

Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins, SVÞ og Viðskiptaráð Íslands gera athugasemdir við frumvarp til breytinga á lögum um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS og ETS2). Í umsögninni er lögð áhersla á að innleiðing ETS2 kerfisins, án þess að tekin sé afstaða til samspils þess við núverandi kolefnisgjald, skapi tvöfalda skattlagningu á sömu losun CO₂. Þetta gæti leitt til umtalsverðrar hækkunar á eldsneytisverði – allt að 200 kr. á lítra – og skaðað samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Samtökin leggja ríka áherslu á að stjórnvöld nýti undanþáguheimild í ETS-tilskipuninni sem gerir kleift að undanþiggja innflytjendur eldsneytiskaupum á ETS2 losunarheimildum ef kolefnisgjald er fyrir hendi. Einnig er gagnrýndur skortur á stefnu um ráðstöfun tekna sem ríkissjóður mun fá af kerfinu og kallað eftir að þær fari í að styðja við orkuskipti og draga úr áhrifum á neytendur og fyrirtæki. Sérstök athygli er vakin á því að gjaldtaka Umhverfisstofnunar fyrir umsýslu með ETS kerfinu sé óeðlileg, þar sem kerfið skili þegar miklum tekjum í ríkissjóð.

Að lokum vara samtökin við áhrifum ETS-kerfisins á flugumferð til og frá Íslandi. Þau hvetja til víðtæks samráðs og að skilyrði fyrir innleiðingu verði skýr – sérstaklega hvað varðar forsendur undanþágu og afnám tvísköttunar. Samtökin telja brýnt að tryggja jafnræði, hagkvæmni og sanngirni í orkuskiptum og loftslagsstefnu.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024