Innleiðing viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (ETS) hefur þegar haft veruleg áhrif á íslenskt atvinnulíf og samkeppnishæfni landsins. Viðskiptaráð leggur áherslu á að útfærsla kerfisins taki mið af sérstöðu Íslands sem eyríkis, þar sem flug og sjóflutningar eru forsenda verðmætasköpunar. Nauðsynlegt er að nýta þær undanþáguheimildir sem til eru.

Viðskiptaráð hefur veitt umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og hollustuhættir og mengunarvarnir. Ráðið fagnar þeim breytingum sem orðið hafa á frumvarpinu frá því það var fyrst lagt fram á 156. löggjafarþingi, einkum því að fallið hafi verið frá áformum um innleiðingu ETS2, líkt og áður var stefnt að og að fremur standi nú til að einfalda og skýra lagaramma ETS kerfisins. Að mati ráðsins er þó ástæða til að árétta nokkur mikilvæg atriði.
Með frumvarpinu er ætlunin að gera úrbætur á gildandi lögum til að tryggja rétta framkvæmd þeirra þátta tilskipunar ESB sem þegar hafa verið innleiddir. Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (e. Emissions Trading System, ETS) á uppruna sinn í svokölluðum Fit for 55 pakka Evrópusambandsins. Kerfið var innleitt í íslensk lög árið 2023 og tók gildi 1. janúar 2024, með stigvaxandi innleiðingu en stefnt er að 100% skilaskyldu árið 2026.
Reynsla íslenskra fyrirtækja af innleiðingu ETS sýnir að kerfið hefur reynst afar íþyngjandi og kemur einstaklega illa við eyríki eins og Ísland sem reiða sig á flug og sjóflutninga með útflutningsvörur og fólk til og frá landinu. Af kerfinu leiðir gríðarlegur kostnaðarauki fyrir íslenskt atvinnulíf, sem bitnar óhjákvæmilega á útflutningsgreinum, leiðir til hærra innflutningsverðs, gerir okkur einangraðari sem þjóð og skerðir samkeppnishæfni fyrirtækja og þar lífskjör í landinu.[1]
Ólíðandi að ETS-kerfið bitni sérstaklega á Íslandi
ETS hefur víða verið gagnrýnt á undanförnum árum og bent hefur verið á að aðgerðir sem eru illa undirbúnar eða ekki í takt við raunverulegar aðstæður geti valdið meiri skaða en gagni.[2] Á Íslandi á það sérstaklega við þegar innleidd eru alþjóðleg kerfi án þess að tekið sé mið af eyríkisstöðu landsins og sett eru markmið eða álögur sem auka kostnað verðulega og skerða samkeppnishæfni samtímis án raunhæfra valkosta.
Íslensk skipafélög greiða 100% ETS-gjald milli Íslands og ESB-ríkja auk 50% ETS-gjalds á milli Íslands og Bandaríkjanna. Á meðan greiða skipafélög sem sigla beint á milli ESB og Bandaríkjanna einungis 50% ETS-gjald af allri siglingaleiðinni. Með öðrum orðum greiða íslensk skipafélög helmingi hærri ETS-gjöld en þau evrópsku fyrir vöruflutninga á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Þetta er einfaldlega ólíðandi ástand. Ísland á ekki að búa við hærri flutningskostnað og skerta samkeppnishæfni undirstöðuatvinnugreinar vegna skakkrar innleiðingar á regluverki ESB.
Í flugi eru leiðir til og frá Íslandi með þeim lengstu í Evrópu, sem þýðir að áhrif ETS á íslenskt flug eru óhóflega mikil. Með afnámi sérstakrar undanþágu árið 2026 mun kostnaður íslenskra flugfélaga aukast verulega. Það mun að öðru óbreyttu leiða til fækkun flugleiða, lægri tíðni flugs, hærra miðaverðs og skertrar samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar gagnvart öðrum flugvöllum. Það kann síðan að leiða til þeirrar kaldhæðnislegu stöðu að ETS-kerfið auki kolefnislosun, ef flug og flutningar færast af þessum sökum til annarra svæða þar sem ferðir eru lengri eða óhagkvæmari í eldsneytisnotkun.[3] Þessu þarf að breyta hið fyrsta.
Sérstaða Íslands
Í tengslum við ETS er rétt að nefna að Ísland hefur einstaka stöðu í alþjóðlegu samhengi. Hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á landi er með því hæsta sem þekkist í heiminum og er losun á hverja framleiðslueiningu lág í alþjóðlegum samanburði. Þá er þjóðin er fámenn, með hátt hlutfall orkufreks iðnaðar og mikinn ferðamannafjölda miðað við höfðatölu. Þrátt fyrir þetta er Ísland borið saman við ríki sem búa við gjörólíkar forsendur og standa Íslandi mun aftar þegar kemur að orkuskiptum.[4]
ETS er hannað fyrir stóran meginlandsmarkað en ekki fyrir fámennt hagkerfi sem reiðir sig á flutninga fólks og vara til og frá landinu til þess að skapa útflutningsverðmæti. Ísland er eyríki, algjörlega háð sjóflutningum, með mikla fjarlægð frá helstu mörkuðum. Ólíkt meginlandi Evrópu hafa t.a.m. farmflytjendur enga raunhæfa aðra kosti en flug og siglingar. Því leggst ETS-kerfið mun þyngra á Ísland en önnur ríki. Innleiðingin hefur þegar leitt til verri samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og ef ekki verður brugðist við er fyrirséð að áhrifin verði viðvarandi.
Losunarheimildir fyrir a.m.k. 11 milljarða
Gert er ráð fyrir að Ísland þurfi að kaupa losunarheimildir fyrir að minnsta kosti 11 ma. kr. til að geta staðið við skuldbindingar í loftslagsmálum, þar sem ekki hefur tekist að halda í við markmið á síðustu árum.[5] Sá kostnaður mun lenda á einstaklingum og fyrirtækjum sem standa undir lífskjörum í landi þar sem verðmætasköpun er þegar ein sú umhverfisvænasta í heimi. Að auki eru boðaðar í frumvarpinu tvær nýjar gjaldtökuheimildir vegna umsýslu án skýrra kostnaðarviðmiða.
Samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er lykilforsenda grænnar umbreytingar og samdráttar í útblæstri. Þyngri reglubyrði, nýjar kvaðir eða auknar álögur geta dregið úr fjárfestingargetu fyrirtækja í nýsköpun og grænum lausnum. Þá hefur það verulegar efnahagslegar afleiðingar að fyrirtæki þurfi að kaupa losunarheimildir fyrir háar fjárhæðir, á sama tíma og skortur er á nægilegri uppbyggingu grænnar orkuvinnslu og dreifikerfa.
Í 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðherra geti, með reglugerð, veitt undanþágur frá skilaskyldu losunarheimilda fyrir ákveðnar tegundir siglinga, m.a. milli hafna innan og utan EES og fyrir eyjar eða ystu svæði, í samræmi við tilskipun (ESB) 2023/959. Að mati Viðskiptaráðs er mikilvægt að slík heimild verði lögfest svo tryggt sé að Ísland geti nýtt þann sveigjanleika sem tilskipunin heimilar, með hliðsjón af sérstöðu landsins sem eyríkis og langri fjarlægð frá mörkuðum.
Tillögur að næstu skrefum
Viðskiptaráð fagnar því markmiði að einfalda og skýra lagaramma ETS kerfisins og að fallið hafi verið frá innleiðingu á nýju ETS2-kerfi að svo stöddu. Hins vegar telur ráðið brýnt að íslensk stjórnvöld:
Hér er um grundvallarmál að ræða fyrir íslenskt atvinnulíf og hagfelld lífsskilyrði á Íslandi. Náist samningar ekki við ESB í tæka tíð um framangreind atriði hvetur Viðskiptaráð íslensk stjórnvöld til að ráðast í einhliða lagasetningu til að koma í veg fyrir frekara tjón af núverandi regluverki.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.
1 Viðskiptablaðið (2025). Slóð: https://vb.is/frettir/greida-nu-thegar-haerra-losunargjald-til-evropu/
2 New York Post (2025). Slóð: https://nypost.com/2025/10/28/us-news/bill-gates-makes-major-climate-change-reversal-after-years-of-doomerism/
3 Sjá umsögn SA, SAF og SVÞ til framkvæmdarstjórnar ESB vegna endurskoðunar á Viðskiptakerfinu (Júlí 2025). Slóð: https://samtok-atvinnulifsins.cdn.prismic.io/samtok-atvinnulifsins/aHeyokMqNJQqH-H4_ETSReviewSA-SVTH-SAF.pdf
4 Sjá nánar umsögn Viðskiptaráðs við drög að landsákvörðuðu framlagi Íslands til Parísarsamkomulagsins (september 2025). Slóð: https://vi.is/umsagnir/raunhaef-loftslagsmarkmid
5 Visir.is (2025). Slóð: https://www.visir.is/g/20252774622d/is-land-gaeti-thurft-ad-kaupa-losunarheimildir-fyrir-milljarda-til-ad-standa-vid-skuld-bindingar