Viðskiptaráð Íslands

Stjórnarmenn Viðskiptaráðs á WE Inspirally 2015

Alþjóðlega ráðstefnan Inspirally WE 2015 fer nú fram í Hörpu í tilefni af því að hundrað eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, og Birna Einarsdóttir, stjórnarmaður í ráðinu, tóku þátt í dagskrárliðnum „Women & the Economy Dialogue“ og fjölluðu um stöðu kvenna á íslenskum vinnumarkaði sem og á alþjóðlegum vettvangi.

Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er há á alþjóðlegum mælikvarða og í umræðu um hana sagði Hreggviður fæðingarorlofskerfið gera okkur kleift að halda henni uppi. Það sama eigi einnig við um hin Norðurlöndin. Þrátt fyrir það sé launamunur kynjanna enn viðvarandi vandamál. Birna velti því fyrir sér hversu lengi eigi að leyfa því að viðgangast og benti á að fjármálageirinn sé almennt aðeins eftir á hvað fjölda kvenkyns stjórnenda varðar.

Bæði voru þau sammála um að gera þurfi samfélagslegar breytingar til þess að ná hraðari framförum. Lagasetning um fjölda kvenna í stjórnum skráðra fyrirtækja var skref sem þurfti að taka en Birna sagði það vonbrigði að aukinn fjöldi kvenna í stjórnum fyrirtækja hafi ekki haft meiri áhrif á stjórnunarteymin sjálf. Til þess að taka megi lokaskrefin í því að loka kynjabilinu þurfi því allir að vinna að sama markmiði. 

Hreggviður sagði það skipta máli hvernig framsetning á umræðu væri um þessi mál og að tala ætti frekar um jöfn réttindi í stað kvenréttinda. Vissulega séu til þeir karlar sem eru hræddir um að missa sín sæti við borðið ef konum er hleypt inn en það séu þó óþarfa áhyggjur. Viljinn til þess að gera breytingar sé það sem þurfi en einnig megi skoða hvað hefur verið vel gert hér á landi og fagna því. Næsta skref er svo að gera áætlun um hvernig eigi að ná þeim markmiðum sem eftir standa. 

Bein útsending frá ráðstefnunni er á Vísi.is.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024