Viðskiptaráð Íslands hefur ráðið Svanhildi Hólm Valsdóttur í starf framkvæmdastjóra.
Viðskiptaráð Íslands hefur ráðið Svanhildi Hólm Valsdóttur í starf framkvæmdastjóra. Svanhildur er lögfræðingur frá Háskóla Íslands með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.
Síðastliðin ár hefur Svanhildur starfað sem aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra, með stuttri viðdvöl í forsætisráðuneytinu, en hún vann einnig við fjölmiðla um árabil.
„Við erum afar spennt að fá Svanhildi til liðs við okkur. Hún hefur mikla reynslu og þekkingu á efnahags- og viðskiptalífinu sem er dýrmætt á þessum víðsjárverðu tímum. Viðskiptaráð er mikilvæg rödd íslensks atvinnulífs og hjá okkur eru spennandi verkefni framundan, sem Svanhildur mun koma inn í af krafti.“ segir Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs.
Svanhildur hefur störf hjá Viðskiptaráði 1. desember.