Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og alþingismaður, heimsótti Hús atvinnulífsins í dag til að kynna bók sína sem kom út á dögunum og ber heitið Vegferð til farsældar.
Vilhjálmur gegndi stöðu framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs (þá Verslunarráðs) í 17 ár, eða frá 1987 til 2003, og á að baki farsælan feril innan stjórnmálanna. Hann gegndi einnig stöðu framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins frá 2006 til 2013 og var rektor Háskólans á Bifröst frá 2013 til 2019.
Í bók sinni fjallar Vilhjálmur um þróun íslensks samfélags undanfarna áratugi og sýn sína á nokkur mikilvæg viðfangsefni sem framundan eru. Vilhjálmur bendir á að íslenskt samfélag sé nú í fremstu röð á mörgum sviðum vegna margvíslegra umbóta sem gerðar voru á tíunda áratug síðustu aldar. Loks ræðir hann þar hvert Ísland stefnir, hvað megi betur fara og hvað beri að leggja áherslu á í vegferð til farsældar.
Vilhjálmur kynnti bókina fyrir starfsfólki í Húsi atvinnulífsins og áritaði hana að kynningu lokinni. Starfsfólk Viðskiptaráðs þakkar Vilhjálmi innilega fyrir innlitið og mælir heilshugar með lestri bókarinnar. Hún er m.a. fáanleg í vefvefslun Pennans á þessari slóð.