Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2022 sem Viðskiptaráð stóð fyrir á Hilton Reykjavík Nordica föstudaginn 20. maí.
Almennt hefur Viðskiptaþing verið haldið í febrúar ár hvert en vegna heimsfaraldurs eru rúm tvö ár liðin frá því að unnt var að halda viðburðinn með hefðbundnu sniði.
Að þessu sinni var yfirskrift Viðskiptaþings: „Tímarnir breytast og vinnan með – Vatnaskil á vinnumarkaði.“ Á þinginu var m.a. fjallað um vinnumarkaðinn, vinnustaði, þær miklu breytingar sem virðast vera að eiga sér stað og hlutverk stjórnenda í þeim, samspil menntakerfis og atvinnulífs og fleira. Skýrslu þingsins má finna hér.
Aðalfyrirlesari var Dr. Alan Watkins, stjórnendaþjálfari og eigandi Complete. Aðrir ræðumenn voru Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásdís Eir Símonardóttir, formaður Mannauðs, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, og móralski leiðtoginn Pétur Jóhann Sigfússon.
Þá ræddu þau Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, Margrét Lára Friðriksdóttir, mannauðsstjóri Össurar, og Selma Rún Friðjónsdóttir, háskólanemi, um menntakerfið og samspil þess við atvinnulífið í panel undir stjórn Svanhildar Hólm Valsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs.