Viðskiptaráð Íslands

Verðbólgan heimatilbúinn vandi

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, var gestur í Spursmálum á dögunum. Í þættinum var farið m.a. farið yfir stöðu efnahagsmála, verðbólgu, skattastefnu stjórnvalda, húsnæðismál og áherslur nýs menntamálaráðherra. Hann lýsti bæði áhyggjum af efnahagslegri þróun og bjartsýni á breytingar sem hann telur vera í farvatninu í skólakerfinu.

Fagnar ákveðni nýs menntamálaráðherra

Björn Brynjúlfur hrósaði nýjum menntamálaráðherra, Ingu Sæland, fyrir staðfestu og skýra sýn í menntamálum og sagði hana virðast horfast í augu við þann vanda sem blasi við í íslensku skólakerfi.

Þar lýsti hann m.a. ánægju með þá stefnu ráðherrans að birta niðurstöður samræmdra prófa niður á einstaka grunnskóla auk þess að afnema bókstafaeinkunnakerfið og taka upp tölueinkunnakerfi í staðinn og ætla að beita sér fyrir bættri læsiskennslu.

Heimatilbúinn verðbólguvandi

Í viðtalinu lýsti Björn Brynjúlfur áhyggjum af efnahagsástandinu og sagði verðbólguna að stórum hluta vera heimatilbúinn vanda. Hann benti á að íslensk fyrirtæki ættu erfitt uppdráttar vegna sífellt þyngra regluverks, skattahækkana og aukinna álaga.

Hann nefndi sérstaklega hækkandi aðfangakostnað til og frá landinu, meðal annars vegna kolefnisgjalda á skipa- og flugsamgöngur í gegnum evrópskt regluverk. Að hans mati væru stjórnvöld í því sambandi að skora sjálfsmörk sem drægju úr hagvexti. Þá sagði hann áhyggjuefni að verðbólgan væri ekki tekin föstum tökum nema með áframhaldandi háum vöxtum, sem yllu verulegum sársauka fyrir heimili og fyrirtæki.

Björn Brynjúlfur ræddi einnig skattamál og vísaði þar í erindi Orra Haukssonar á Skattadeginum. Hann sagði ríkisútgjöld vera hina raunverulegu skatta. „Þegar opinber útgjöld eru aukin er ríkið að taka til sín takmarkaða þætti hagkerfisins. Það er greitt með sköttum, lántöku af framtíðarkynslóðum eða með verðbólgu.“

Stefán Einar Stefánsson, stjórnandi Spursmála, Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Gagnrýndi úthlutun lóða og óhagnaðardrifin húsnæðisfélög

Björn Brynjúlfur gagnrýndi hvernig Reykjavíkurborg og ríkið hefðu staðið að úthlutun lóða á undirverði til svokallaðra óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga, oft án opinnar samkeppni.

Hann nefndi sérstaklega húsnæðisfélagið Bjarg, sem hafi hagnast um 28 milljarða króna á skömmum tíma með því að fá lóðir afhentar á undirverði, auk þess að njóta 35% niðurgreiðslu á byggingarkostnaði og hagstæðra niðurgreiddra lána til 50 ára frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Viðskiptaráð hefur kvartað yfir fyrirkomulaginu til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, þar sem ráðið telur það fela í sér ólögmæta ríkisaðstoð. ESA ákvað að taka málið til efnislegrar skoðunar og gefið sér tólf mánuði til rannsóknar.

„Að okkar mati ætti einfaldlega að frysta þetta kerfi á meðan málið er til skoðunar, sérstaklega í ljósi þess að verið er að ræða niðurskurð ríkisútgjalda,“ sagði Björn Brynjúlfur.

Hér má horfa á Spursmál

Tengt efni

Einfalda megi skattkerfið

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti að einfalda …
16. janúar 2026

Myndband: Er ríkið farið að þjónusta sig sjálft?

Lísbet Sigurðardóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, fjallar um opnunartíma …
15. janúar 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fer fram þriðjudaginn 10. febrúar kl. 11:30 í …
13. janúar 2026