Stjórnvöld áforma að 45% nýrra íbúða í Reykjavík fari í niðurgreidd húsnæðisúrræði utan almenns markaðar á næstu árum. Stefnan felur í sér ógagnsæja meðgjöf til húsnæðisfélaga á vegum þriðja aðila, áhættutöku fyrir ríkissjóð og framboð á skjön við þarfir íbúa. Viðskiptaráð leggur til breytta stefnu sem bætir hag íbúa höfuðborgarinnar.
Íbúum landsins hefur fjölgað ört undanfarinn áratug – úr 320 þúsund árið 2015 upp í um 390 þúsund í dag. Fjölgunin hefur verið hröðust á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur aukið eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Í slíkri stöðu skiptir máli að aðgerðir yfirvalda styðji við aukið framboð á húsnæði. Á næstu árum mun helmingur nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu rísa í Reykjavík. Vegna húsnæðisstefnu stjórnvalda mun stór hluti þessara íbúða ekki koma inn á almennan markað. [1]
Tæplega helmingur íbúða í niðurgreidd úrræði
Af íbúðum sem fyrirhugað er að reistar verði í Reykjavík næstu tíu árin fara einungis 55% inn á almennan húsnæðismarkað (mynd 1). Hin 45% fara í niðurgreidd húsnæðisúrræði, nánar tiltekið húsnæðisfélög, svokallað hagkvæmt og grænt húsnæði og félagslegt húsnæði.
Skipting á milli almenns húsnæðismarkaðar og niðurgreiddra úrræða er misjöfn eftir hverfum, en hlutfall íbúða sem fer í niðurgreidd úrræði er einna hæst miðsvæðis. Til dæmis fer um helmingur af íbúðum sem eiga að rísa í Hlíðunum í slík úrræði og allar íbúðir við Háskóla Íslands, Hlíðarenda og Nauthólsveg. Hlutfallið er lægst í Skerjafirði og í Keldnalandi.
Reykjavíkurborg gengur lengra en önnur sveitarfélög
Áform Reykjavíkurborgar um að úthluta íbúðum með fyrrgreindum hætti byggir á rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um íbúðauppbyggingu til 2032. Samkvæmt samningnum eiga 30% af þeim 35.000 íbúðum að vera „hagkvæmt húsnæði á viðráðanlegu verði“. Undir þá skilgreiningu falla íbúðir sem njóta opinberrar niðurgreiðslu, t.d. í formi stofnframlaga eða hlutdeildarlána. Í ofanálag eiga 5% nýrra íbúða að fara í félagsleg úrræði.
Reykjavíkurborg gengur lengra en kveðið er á um í samningnum og áformar að 45% íbúða fari í niðurgreidd úrræði utan almenna markaðarins. Nánar tiltekið eiga um 30% að renna til húsnæðisfélaga, 5% í félagslegt húsnæði og 10% í önnur niðurgreidd úrræði. [2]
Meirihluti íbúða til húsnæðisfélaga þriðju aðila
Stjórnvöld hafa þegar niðurgreitt uppbyggingu 2.300 íbúða á vegum húsnæðisfélaga í Reykjavík frá árinu 2016 í gegnum stofnframlög (mynd 2). Af þessum framlögum runnu 30% til Félagsbústaða, sem eru að fullu í eigu Reykjavíkurborgar. Hin 70% runnu til húsnæðisfélaga á vegum þriðju aðila. Þar vegur þyngst húsnæðisfélagið Bjarg, sem er stýrt af Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og BSRB.
Eðlismunur er á opinberum framlögum til félaga í opinberri eigu og félaga á vegum þriðja aðila. Félagsbústaðir eru í fullri eigu Reykjavíkurborgar og þess vegna er í því tilfelli einungis um að ræða tilfærslu verðmæta innan hins opinbera. Þá er íbúðum Félagsbústaða einungis úthlutað á grundvelli fjárhags og félagslegra viðmiða umsækjenda en standa að öðru leyti öllum íbúum til boða. Fjármunir Félagsbústaða eru því nýttir til að veita opinbera þjónustu og engin opinber verðmæti skipta um hendur. Hvorugt á við þegar framlögum er ráðstafað til félaga á vegum þriðja aðila.
Húsnæðisfélög eru ekki fyrir alla
Til þess að fá úthlutað íbúð hjá húsnæðisfélaginu Bjargi dugir ekki að vera undir almennum tekju- og eignaviðmiðum sem skilgreind eru í lögum, heldur verður umsækjandinn að vera fullgildur félagsmaður í ASÍ eða BSRB í að lágmarki 16 af síðustu 24 mánuðum. Þetta þýðir að stjórnvöld hafa afhent umtalsverð verðmæti til húsnæðisfélags sem síðan gerir aðild að frjálsum félagasamtökum að skilyrði fyrir aðgengi að þessum sömu verðmætum. [3]
Þetta fyrirkomulag samrýmist illa grundvallarsjónarmiðum í opinberum rekstri. Má þar helst nefna gagnsæja meðferð opinberra fjármuna, jafnræðisreglu, félagafrelsi og lögmæti ríkisaðstoðar gagnvart EES-samningnum. Í því samhengi má nefna reglur stjórnsýsluréttar, stjórnarskrár og EES-samningsins þegar kemur að lögmæti ríkisaðstoðar, en hún þarf að vera bæði gagnsæ að fullu og veitt á jafnræðisgrundvelli gagnvart öðrum aðilum.
Fjárhagslegur ávinningur af óhagnaðardrifnum félögum
Það skýtur skökku við að forsvarsmönnum þeirra aðila sem stýra stærstu húsnæðisfélögum landsins hafi verið tíðrætt um að þau séu „óhagnaðardrifin“ eða „lítt hagnaðardrifin“. Í þeirri orðræðu hafa þeir ekki getið þess fjárhagslega ávinnings sem ASÍ og BSRB hafa af því að starfrækja umrædd félög. Þar sem aðild er skilyrði fyrir úthlutun íbúða gerir það aðild að stéttarfélagi að álitlegri kosti en ella. [4]
Þótt húsnæðisfélögin sjálf séu óhagnaðardrifin er fjárhagslegur ávinningur því sannarlega til staðar hjá þeim aðilum sem stýra umræddum félögum. Þessi ávinningur mun vaxa á komandi árum ef stjórnvöld halda áfram að styrkja húsnæðisfélög sem lúta stjórn þessara aðila fjárhagslega.
Mestar niðurgreiðslur til húsnæðisfélaga
Á árunum 2024-2033 er fyrirhugað að reisa 9.250 íbúðir í Reykjavík. Af þeim fjölda eiga byggingarréttir undir 3.070 íbúðir að fara til húsnæðisfélaga og 1.060 íbúðir verða svokallaðar grænar og hagkvæmar íbúðir. Niðurgreiðslur vegna þessara íbúða nema 69 ma. kr. til ársins 2033, að óbreyttu (mynd 3). Þar af eru 64 ma. kr. af niðurgreiðslunum vegna íbúða sem fara til húsnæðisfélaga.
Niðurgreiðslurnar skiptast í stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum og falin framlög. Falin framlög eru annars vegar eftirgjafir af markaðsvirði lóða, sem eru ekki bókfærðar sem opinber útgjöld, og hins vegar niðurgreidd lán frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), en umfang lánaniðurgreiðslnanna liggur ekki fyrir opinberlega.
Áformaðar niðurgreiðslur ríkis og sveitarfélaga í lokuð úrræði húsnæðisfélaga nema 64 af 69 mö. kr. á næstu árum, eða yfir 90% af heildarumfangi niðurgreiðslna. Sé upphæðinni deilt með þeim 3.070 íbúðum sem áformað er að húsnæðisfélög byggi þá nemur niðurgreiðslan 21 m.kr. á hverja íbúð.
Niðurgreiðslur lækka stofnkostnað um 46%
Samtala lóðaverðs og byggingarkostnaðar íbúðar kallast stofnkostnaður. Opinberar niðurgreiðslur til húsnæðisfélaga nema 270 þús. kr. á fm. og lækka stofnkostnað húsnæðisfélaga úr 590 þús. kr. á fm í 320 þús. kr. á fm. Niðurgreiðslurnar þýða því að húsnæðisfélög geta byggt íbúðir á 46% lægra verði en aðilar sem ekki njóta opinberrar meðgjafar. Niðurgreiðslurnar skiptast í þrennt:
Niðurgreiðslunum er ætlað að stuðla að uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði en að framangreindu virtu er húsnæðið ekki hagkvæmara en húsnæði á almennum markaði. Eini munurinn er að svokallað hagkvæmt húsnæði er niðurgreitt af hinu opinbera um tæplega helming.
Forkaupsréttir eru falin framlög
Reykjavíkurborg úthlutar íbúðum til húsnæðisfélaga með misjöfnun hætti. Stundum eru lóðir eða byggingarréttir afhentir slíku félagi án útboðs. Önnur leið er þegar Reykjavíkurborg setur kvöð um forkaupsrétt tiltekinna húsnæðisfélaga í skilmála þegar byggingarréttur er settur í opið útboð. Síðarnefnda aðferðin var notuð við sölu byggingarréttar í Vesturbugt, við gömlu höfnina í miðborg Reykjavíkur árið 2024. [9]
Kvöð Reykjavíkurborg um forkaupsrétti húsnæðisfélaga skertu söluandvirði byggingarréttarins um 1,6 ma. kr. samkvæmt áætlun Viðskiptaráðs (mynd 5). Samkvæmt útboðsskilmálum fylgdi byggingarréttinum í Vesturbugt kvöð um að Félagsstofnun stúdenta (FS) ætti forkaupsrétt á 50 íbúðum og Félagsbústaðir á 14 íbúðum. Þannig voru kvaðir lagðar á rúmlega þriðjung þeirra 177 íbúða sem reisa má á reitnum. Byggingarrétturinn hefði selst á 4,4 ma. kr. án kvaða miðað við markaðsvirði lóða á svæðinu, en seldist á 2,8 ma. kr. að kvöðunum meðtöldum.
Kvaðir um forkaupsrétti undir markaðsvirði fela í sér falda meðgjöf til húsnæðisfélaganna vegna þess að borgin lækkar virði byggingarréttar með því að setja á þessar kvaðir. Þessi kostnaður birtist ekki í bókum Reykjavíkurborgar en felur engu að síður í sér eftirgjöf tekna borgarinnar sem rennur til þriðja aðila.
Áhersla lögð á leigumarkað sem fáir vilja vera á
Stefna stjórnvalda í Reykjavík er að auka vægi leigumarkaðar með því að ráðstafa þriðjungi nýrra íbúða í leigu hjá húsnæðisfélögum. Þessi áform ríma illa við vilja íbúa höfuðborgarsvæðisins, sér í lagi þeirra sem eru á leigumarkaði nú þegar.
Af þeim 20% á húsnæðismarkaði sem leigja vilja einungis 8% vera á leigumarkaði (mynd 6). Þá hefur hlutfall þeirra sem eru sjálfviljugir á leigmarkaði farið lækkandi undanfarin 4 ár. [10] Einnig er ánægja meðal leigjenda minni en þeirra sem búa í eigin húsnæði, en hlutfall þeirra sem eru óánægðir með sinn húsakost er fjórfalt hærra meðal þeirra sem leigja samanborið við þá sem eiga. [11]
Hlutfallsleg skipting á milli húsnæðis til leigu og eigu verður hagkvæmust ef hún er ákvörðuð á frjálsum markaði í stað þess að vera handstýrt af stjórnvöldum. Ef hið opinbera vill stuðla að auknu framboði leiguhúsnæðis væri bæði árangursríkast og hagkvæmast að aflétta íþyngjandi kvöðum sem lagðar hafa verið á leigusala á síðustu árum og hafa dregið úr framboði leiguhúsnæðis. [12]
Hagkvæmasta húsnæðið er þegar byggt
Að lokum er skökk áhersla hjá stjórnvöldum að nýtt húsnæði eigi að vera hagkvæmt og ódýrt. Verð á eldra húsnæði er mun lægra en verð á nýju húsnæði. Þá er húsnæði sem byggt var 1950 og fyrr að jafnaði 28% ódýrara en það sem er byggt 2020 og síðar (mynd 7). Þessi munur skýrist af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er eldra húsnæði hagkvæmara vegna þess að byggingarkröfur í dag eru meiri en áður. T.d. hafa kvaðir um algilda hönnun, hljóðeinangrun, loftræstingu og aðrar vistkröfur hækkað stofnkostnað samanborið við það sem áður var.
Í öðru lagi eru oftar hagkvæmari íbúðarkostir í boði í eldra húsnæði, svo sem íbúðir á jarðhæð eða í kjöllurum, en slíkar íbúðir eru í minna mæli heimilaðar í nýbyggingum í dag m.a. vegna kvaða um rými fyrir atvinnuhúsnæði á jarðhæðum. Þá eru eldri fasteignir gjarnan ódýrari vegna fyrri notkunar og eðlilegs notkunarslits, sem gerir slíkar íbúðir að hagkvæmari valkosti en nýjar íbúðir.
Steypt í skakkt mót
Að framangreindu virtu er ljóst að húsnæðisstefna stjórnvalda skýtur skökku við. Með henni á að veita 69 ma. kr. niðurgreiðslu til húsnæðisuppbyggingar utan almenna markaðarins. Niðurgreiðslan fer að mestu til húsnæðisfélaga, sem fá nær helmingsafslátt af stofnkostnaði íbúða í formi opinberra niðurgreiðslna.
Stór hluti þessarar meðgjafar endar hjá þriðja aðila en þar er Bjarg stórtækast, félag undir stjórn ASÍ og BSRB. Íbúðir Bjargs standa einungis félagsmönnum stéttarfélaga til boða jafnvel þótt þær séu að stórum hluta byggðar fyrir opinbert fé. Þá gengur stefnan um að auka hlutdeild leiguhúsnæðis á markaðnum hvort tveggja gegn vilja þeirra sem eru á leigumarkaði og á húsnæðismarkaði almennt.
Loks velta núverandi niðurgreiðslur áhættu íbúðarmarkaðarins yfir á skattgreiðendur á sama tíma og einkaaðilar njóta góðs af ávinningnum. Skattgreiðendur munu bera tjónið af vanskilum niðurgreiddra lána HMS. Þá eiga þeir mikið undir því að eignir í höndum þriðja aðila rýrni ekki í virði.
Stjórnvöld eru að steypa húsnæðismarkaðnum í skakkt mót. Hvatar kerfisins eru rangir, ekki er gætt að jafnræði og skattgreiðendur sitja uppi með kostnaðinn af ójafnvæginu á húsnæðismarkaði.
Þrjár tillögur til jafnræðis, ráðdeildar og öryggis
Viðskiptaráð leggur til að stjórnvöld breyti um stefnu í húsnæðismálum með þrennum hætti:
#1. Byggingarréttum úthlutað á markaðsvirði: Allir byggingarréttir verði seldir í opnu útboði og þar með verði hætt að veita falin framlög í formi lóðameðgjafar. Ef stjórnvöld vilja afhenda lóðir eða íbúðir á ákveðnum svæðum til ákveðinna aðila mætti gera það með því að veita viðkomandi heimild til að ganga inn í opið útboðsferli á markaðsverði miðað við fyrirliggjandi niðurstöðu útboðsins. Þannig er tryggt að útsvarsgreiðendur fái hámarksverð fyrir eignir síns sveitarfélags.
#2. Veitingu stofnframlaga hætt: Viðskiptaráð leggur til að stjórnvöld hætti að veita stofnframlög til íbúðauppbyggingar. Stofnframlögin fela í sér mikla áhættutöku fyrir skattgreiðendur, sem eiga með þeim mikið undir því að eignum í höndum þriðja aðila sé ráðstafað á skynsamlegan hátt og haldi verðgildi sínu.
#3 HMS hætti að veita lán: Viðskiptaráð leggur til að öllum veitingum niðurgreiddra lána frá HMS verði hætt. Lán opinberrar stofnunar til einkaaðila þýðir að öll áhættan við slík lán liggur hjá skattgreiðendum. Þannig getur lánið aðeins fallið á þá sem engan ávinning hafa af veitingu lána á vöxtum sem eru undir markaðskjörum. Jafnframt er Viðskiptaráð mótfallið því að hið opinbera sé í samkeppni við einkaaðila á mörkuðum sem þeir einkaaðilar eru fullfærir um að standa undir. Lánamarkaður er þar engin undantekning.
Sé vilji stjórnvalda að niðurgreiða ákveðin húsnæðisúrræði ættu yfirvöld að gera það í gegnum bein fjárframlög, en slíkt myndi tryggja gagnsæi um ráðstöfun skattfés. Heildartjón skattgreiðenda vegna mislukkaðra útlána Íbúðalánasjóðs (nú ÍL-sjóðs) nemur mörg hundruð milljörðum króna og er eitt skýrasta dæmi þess að ógagnsæ áhættutaka stjórnvalda getur valdið ævintýralegu tjóni.
Stefna stjórnvalda á húsnæðismarkaði byggir á veikum grunni. Hún samrýmist illa jafnræðissjónarmiðum með því að ráðstafa stórum hluta nýrra íbúða í niðurgreidd úrræði. Þá veltir hún miklum kostnaði niðurgreiðslna og áhættu yfir á skattgreiðendur. Hún eykur loks óhagkvæmni og kostnað íbúa. Stjórnvöld ættu að vinda ofan af þessari stefnu, enda þjónar húsnæðismarkaðurinn best hagsmunum almennings þegar jafnræði, gagnsæi og valfrelsi ráða för.
1 Sjá húsnæðisáætlanir sveitarfélaga hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (2025). Slóð: https://hms.is/husnaedisaaetlanir
2 Reykjavíkurborg (2023). „Húsnæðisáætlun 2024 - 2033“. Slóð: https://reykjavik.is/husnaedi/husnaedisaaetlanir
3 Bjarg (2025). „Skilyrði fyrir úthlutun“. Slóð: https://www.bjargibudafelag.is/leiga/skilyrdi-fyrir-uthlutun/
4 Sjá t.d. „Nýtt íbúðafélag ASÍ, BSRB og VR verður lítt hagnaðardrifið“. Vísir (2022). Slóð: https://www.visir.is/k/fc0affb6-6c0b-4c54-adfe-61ba563fda92-1653330233298
5 Stjórnvöld tala um íbúðir sem njóta stofnframlaga af hálfu hins opinbera sem „almennar íbúðir“ eða „almenna íbúðakerfið.“ Það er villandi hugtakanotkun, enda standa þær íbúðir utan við almennan markað og eru einungis í boði fyrir byggingaraðila og íbúa sem uppfylla tiltekin skilyrði. Hér er þess í stað talað um þær íbúðir sem íbúðir húsnæðisfélaga til að fyrirbyggja rugling við almennan markað.
6 Alþingi. „Lög um almennar íbúðir nr. 52/2016“. Slóð: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2016052.html
7 Sjá dæmi um slíkar úthlutunar í fundargerðum borgarráðs Reykjavíkurborgar undanfarna 12 mánuði, þar sem nokkrar slíkar úthlutanir eru bókfærðar. Afsláttinn þarf að meta í hverju tilfelli fyrir sig, en í þessari úttekt er gert ráð fyrir að markaðsvirði byggingarréttar íbúðarhúsnæðis í Reykjavík sé 120.000 kr./fm. að meðaltali. Slóð: https://reykjavik.is/fundargerdir
8 HMS (2021). „Svona virkar óhagnaðardrifið leigufélag“. Slóð: https://hms.is/frettir/laekka-leigu-svona-virkar-ohagnadardrifid-leigufelag
9 Reykjavíkurborg (2024). „Kauptilboð í spennandi byggingarrétt í Vesturbugt“. Slóð: https://reykjavik.is/auglysingar/kauptilbod-i-spennandi-byggingarrett-i-vesturbugt
10 Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (2024). „Húsnæðismarkaðurinn - Mánaðarskýrsla“. Slóð: https://hms.is/frettir/manadarskyrsla-hms-september-2024
11 Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (2025). „Húsnæðismarkaðurinn - Mánaðarskýrsla“. Slóð: https://hms.is/skyrslur/manadarskyrsla-jan-2025#Leigumarka%C3%B0ur
12 Viðskiptaráð (2024). „Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum.“ Slóð: https://vi.is/umsagnir/umsogn-um-frumvarp-til-laga-um-breytingu-a-husalei
Umfjöllun í fjölmiðlum
Stefnan byggð á veikum grunni - mbl.is, 15. apríl 2025
Ógagnsæ meðgjöf frá Reykjavíkurborg til húsnæðisfélaga - Bítið á Bylgjunni, 15. apríl 2025
Viðskiptaráð: Niðurgreiðsla nýrra íbúða skapar fjárhagslegan ávinning fyrir einkaaðila - ruv.is, 15. apríl 2025
Stjórnvöld að steypa í skakkt mót - vb.is, 15. apríl 2025