Viðskiptaráð Íslands

Stefnir fjárlagahallinn í 47 milljarða?

Samkvæmt nýlegum fregnum af stöðu Íbúðalánasjóðs má ætla að ríkissjóður leggi um 14 ma. kr. í sjóðinn á næstunni til að auka eiginfjárhlutfall sjóðsins. Um þetta var rætt lítillega í nýlegri skoðun Viðskiptaráðs Ríkisfjármálin - betri staða en áætlanir gerðu ráð fyrir? Þar kom m.a. fram að teknu tilliti til þessa framlags, áætlaðs halla ársins uppá 25 ma. kr. og að markmið um sölu eigna uppá 7 ma. kr. virðast ekki ná fram að ganga muni halli á rekstri ríkissjóðs nema um 47 mör. kr. Er það aukning um 30 ma. frá markmiðum í skýrslu fjármálaráðuneytisins frá því í október í fyrra (Herðubreiðuskýrslan) og um tæpa 43 ma. kr. frá markmiðum sambærilegrar skýrslu árið 2009.

Þessi þróun kemur í kjölfar útgáfu ríkisreiknings fyrir árið 2011 sem bar með sér helmingi meiri halla en áætlanir fjárlaga gerðu ráð fyrir sem og að upphafleg markmið um jákvæðan frumjöfnuð náðust ekki. Nema frávikin í frumjöfnuði raunar allt að 70 mö. kr. ef miðað er við fyrrnefnd markmið ársins 2009, en slakað var á markmiðum um frumjöfnuð í Herðubreiðuskýrslunni. Við þetta bætist ákvörðun stjórnvalda síðastliðið haust að fresta markmiðum um heildarjöfnuð um eitt ár, fram til ársins 2014. Rökin þar að baki var betri staða ríkissjóðs en búist var við. Staðan nú bendir til að sú ákvörðun hafi verið ótímabær.

Því má með réttu segja að þrátt fyrir árangur í ríkisfjármálum síðustu ár skortir talsvert á að upphaflegum markmiðum sé náð. Regluleg endurskoðun þeirra til hins verra rennir stoðum þar undir sem og skattahækkanir næsta árs, enda um það rætt af hálfu fyrrverandi fjármálaráðherra að eftir árið 2012 ætti ekki þurfa frekari skattabreytingar eða tekjuöflunaraðgerðir. Lakari hagvöxtur í fyrra en búist var við og horfur um takmaðan hagvöxt næstu ára, þó hann sé hagfelldur í alþjóðlegu tilliti, benda að auki til þess að horfur næstu missera séu í besta falli viðkvæmar. Er það miður af mörgum ástæðum en ein þeirra er að bætt staða ríkissjóðs er ein meginforsenda afnáms gjaldeyrishafta.

Tengt efni

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024

Ólympíuleikar í loftslagmálum

"Ísland er ekki lítið land. Ísland er stórasta land í heimi," sagði Dorrit …
21. ágúst 2024