Þegar stjórnarhætti fyrirtækja og leiðbeiningar á því sviði ber á góma vakna eflaust ekki miklar væntingar. Rifjast í því tilliti upp hjá einhverjum átak og innleiðing viðmiða um stjórnarhætti að erlendri fyrirmynd sem farið var í fyrir 5 árum, en markmið Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins og Kauphallarinnar með því voru skýr. Sýna átti vilja viðskiptalífsins til að mæta aukinni ábyrgð í samfélaginu og efla þannig traust og gagnkvæma tiltrú milli viðskiptalífs og almennings.
Breytt nálgun
Þó slök vinnubrögð lendi oftar í kastljósi fjölmiðla en góð þá gefur andrúmsloftið í samfélaginu undanfarin misseri því miður til kynna að hvorugt fyrrgreindra markmiða hafi náðst. Atburðir í aðdraganda bankahrunsins sýna einnig að leiðbeiningarnar leiddu tæpast til þess að stjórnarhættir hafi almennt tekið umfangsmiklum breytingum til batnaðar. Þvert á móti var eftirfylgni í of mörgum tilfellum aðeins í orði.
Útgáfuaðilar leiðbeininganna ákváðu engu að síður að standa keikir, nýta reynsluna og draga af henni lærdóm. Nýjar leiðbeiningar voru kynntar fyrir tæpum tveimur árum og þá var aðeins litið á þær sem fyrsta skref af mörgum. Áhersla hefur nú öðru fremur verið lögð á markvisst aðhald gagnvart viðskiptalífinu til lengri tíma, eitthvað sem skorti áður. Með þeirri nálgun er ætlunin að skapa aðstæður þar sem góðir stjórnarhættir skipta fyrirtæki máli.
Markvisst og fjölbreytt aðhald
Að þessu hefur verið unnið frá útgáfa leiðbeininganna og hefur aðhaldið tekið á sig fjölbreytta mynd:
Á Viðskiptaþingi fyrir skemmstu tilkynnti formaður Viðskiptaráðs jafnframt um formlega úttekt á þessu sviði sem VÍ, SA og Kauphöllin standa að í samstarfi við áðurnefnda Rannsóknarmiðstöð. Er það í fyrsta skipti sem stjórnendur hafa tök á að undirgangast heildstætt mat að alþjóðlegri forskrift. Því til viðbótar var Fyrirtækjagátt Viðskiptaráðs kynnt til sögunnar, sem er ætlað að hvetja fyrirtæki til bættrar upplýsingagjafar og auka þar með gagnsæi atvinnulífs.
Dropinn holar steininn
Af þessari stuttu yfirferð er ljóst að ekki er ofsagt að góðir hlutir gerast hægt. Í tilviki leiðbeininga um stjórnarhætti þá er lærdómur reynslunnar sá að orð eru eingöngu til alls fyrst. Einbeittur vilji er gott veganesti umbóta en hann dugar vart einn og sér til að ná árangri. Þar ráða athafnir mestu og er þar tilvalið að líta til góðra vinnubragða margra fyrirtækja, sem of sjaldan eru efni opinberar umfjöllunar.
Markvisst, fjölbreytt og jákvætt aðhald verður því áfram í forgrunni vinnu Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins og Kauphallarinnar á þessu sviði. Næsta skrefið verður stigið núna á haustmánuðum með ráðstefnu um efnið, þar sem við ætlum að halda áfram að láta góða stjórnarhætti skipta máli.
Haraldur I. Birgisson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs
Greinin birtist í Fréttatímanum föstudaginn 1. apríl 2011