Viðskiptaráð Íslands

Tölum um hlutina eins og þeir eru

Í aðdraganda nýliðinna kosninga voru allir flokkar sammála um mikilvægi þess að móta langtímastefnu í efnahagsmálum sem lagt gæti grunn að sjálfbærum og sterkum hagvexti á Íslandi. Að sama skapi var það mat stjórnmálanna að leggja ætti aukna áherslu á uppbyggilega, málefnadrifna og gagnsæja umræðu um leiðir til aukinnar hagsældar. Grunnmarkmið allra flokka er það sama, þ.e. betri lífskjör á Íslandi, þó að ekki ríki einhugur um nákvæmar leiðir að því marki.

Árangur næst ekki án umfangsmikilla breytinga
Til að raunveruleg skref séu tekin í átt til bættra lífskjara duga smáskammtalækningar illa. Ráðast þarf í róttæka uppstokkun á ýmsum sviðum efnahagslífsins til að grundvöllur sé fyrir sjálfbærri aukningu í verðmætasköpun. Í því felst að stjórnmálin sýni hugrekki til að nálgast fjölda viðfangsefna með nýjum hætti og hreyfi við ýmsum heilögum kúm. Til að slíkt geti átt sér stað er opinskátt og uppbyggilegt samtal allra hlutaðeigandi aðila nauðsynleg forsenda.

Það er vænlegast til árangurs að tala um hlutina eins og þeir eru. Krónan er ónothæfur gjaldmiðill í núverandi mynd, skuldastaða hins opinbera er á mörkum þess að teljast sjálfbær, gjaldeyrishöft draga mátt úr hagkerfinu, framleiðni er víða verulega ábótavant, skatta- og fjárfestingaumhverfi er flókið, útflutningur er alltof háður náttúruauðlindum og aukin efnahagsleg umsvif síðustu ára hafa í of ríkum mæli verið drifin af neyslu. Verði ekki tekið á þessum rótarmeinum með markvissum hætti eru allar líkur á að framundan sé efnahagsleg stöðnun og rýrnun lífsgæða.

Tækifærin liggja víða
Sé litið á björtu hliðarnar þá höfum við mikil tækifæri til að mæta þessum áskorunum. Með trúverðugri langtímaáætlun í opinberum fjármálum og meiri aga í framkvæmd fjárlaga væri fyrsta skref stigið í átt til aukins stöðugleika. Bætt umgjörð vinnumarkaðar og sterkara vopnabúr Seðlabanka Íslands efla þjóðhagsleg skilyrði enn frekar. Undirbúningur er hafinn að þessum verkefnum og er það fagnaðarefni.

En betur má ef duga skal. Á endanum byggja efnahagsleg lífskjör á þeim verðmætum sem tekst að skapa. Þar reynir verulega á framsýni og dug stjórnmálanna við mótun hagfellds umhverfis. Tækifærin eru rík, en þau þarf að nýta. Skilvirkt regluverk og samkeppnisumhverfi virkja framleiðniauka hjá smáum og stórum fyrirtækjum. Einföldun á flóknu tolla- og neysluskattaumhverfi opnar fyrir erlenda samkeppni og styrkir hag neytenda. Sterkur og samræmdur rammi um náttúruauðlindir með megináherslu á hámörkun verðmætasköpunar skapar burðarsúlur fyrir hagkerfið. Aukin fjárfesting í háskóla- og tæknimenntun samhliða uppstokkun í umgjörð rannsóknar- og þróunarstarfs styður við vöxt fyrirtækja sem byggja á hugviti og þekkingu. Einföldun skattheimtu af fjármagni og réttir hvatar stuðla að aukinni atvinnuvegafjárfestingu. Sértækar aðgerðir geta stutt við virðisauka og nýsköpun í óarðbærum greinum, s.s. landbúnaði og ferðaþjónustu. Að lokum hefur Samráðsvettvangur um aukna hagsæld lagt fram greinargóða samantekt á möguleikum til að nýta opinbera fjármuni betur.

Sátt um mikilvægi verðmætasköpunar
Bætt umhverfi til verðmætasköpunar er vitanlega ekki eina verkefni stjórnvalda. Hún er aftur á móti grunnforsenda þess að hægt sé að standa undir öðrum mikilvægum þáttum samfélagsins og styðja við heimili í erfiðri stöðu. Sterkt velferðarkerfi, markvissar aðgerðir í skuldamálum og uppbygging annarra samfélagslegra innviða byggja á endanum á því að hér sé verðmætum til að dreifa.

Aðgerðirnar hér að ofan eru umfangsmiklar og krefjandi. Til að af þeim geti orðið þurfa allir að leggja lóð sín á vogarskálarnar. Með hliðsjón af því þurfa stjórnmálin að móta skýra framtíðarsýn, byggja upp fyrirsjáanleika í aðgerðum sínum og eiga heiðarlegt, gagnsætt samtal við bæði atvinnulíf og heimili eigi að skapast sátt um verkefnið og trú á bættum lífskjörum. Með öðrum orðum þarf að búa til trúverðuga áætlun og tala um hlutina eins og þeir eru.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. júlí 2013, bls. 28. 

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024