Umræða um hækkun fjármagnstekjuskatts skýtur reglulega upp kollinum. En sjaldan er framkvæmd skattlagninginnar rædd þó hún geti haft alveg jafn mikil áhrif á hegðun og lífskjör. Það er lag að einfalda og samræma skattframkvæmd fjárfestinga fyrirtækja í verðbréfasjóðum.
Verðbréfasjóðir gegna lykilhlutverki við að tengja saman fjármagn, fólk og fyrirtæki. Með því að sérhæfa sig í vali á fjárfestingum stuðla þeir að skilvirkari miðlun fjármagns, sem gerir fleiri arðbær verkefni að veruleika. Þetta styður við avinnuuppbyggingu, nýsköpun og hagvöxt.
Á Íslandi byggir skattkerfið á þeirri grunnhugsun að fyrirtæki geti fjárfest sín á milli án þess að fjármagn sé skattlagt fyrr en eigendur þeirra innleysa hagnað. Þetta á að tryggja óhindrað flæði fjármagns á milli fyrirtækja svo lengi sem það er notað til að skapa ný verðmæti.
Þegar fyrirtæki fjárfesta í hlutabréfum er skattlagning hagnaðar í samræmi við þessa grunnhugsun. Fjármagnstekjuskattur greiðist ekki fyrr en gengishagnaður eða arðgreiðslur eru innleystar af eiganda fyrirtækisins. Þetta fyrirkomulag gerir fyrirtækjum kleift að endurfjárfesta gengishagnaði og arðgreiðslum að fullu í ný verkefni áður en til skattlagningar kemur.
Þessi staða breytist þegar fyrirtæki fjárfesta í hlutabréfum í gegnum verðbréfasjóði. Þá er hagnaður skattlagður árlega óháð því hvort hann sé innleystur eða honum endurfjárfest. Þetta þýðir að fjárfestingar félaga í sjóðum er skattlagðar með allt öðrum hætti en fjárfestingar félaga í hlutabréfum, jafnvel þótt að sjóðurinn fjárfesti einungis í hlutabréfum.
Þrátt fyrir að verðbréfasjóðir séu sjálfir skattfrjálsir leiðir þetta líka til tvískattlagningar fyrir eigendur sem fjárfesta í gegnum félög. Ef fyrirtæki fjárfestir í hlutdeildarskírteinum greiðir félagið fyrst skatt af hagnaðinum jafnvel þótt hann sé ekki innleystur. Þegar eigandinn innleysir hagnað úr félaginu greiðir hann síðan fjármagnstekjuskatt. Þetta þýðir að skattur á fjármagnstekjur er í reynd tvöfalt hærri ef fjárfest er í verðbréfasjóði samanborið við ef fyrirtækið hefði fjárfest beint í hlutabréfum.
Ástæðan fyrir þessu misræmi er sú hvernig lögin meðhöndla hlutdeildarskírteini, sem eru veitt við fjárfestingu í verðbréfasjóðum. Slík skírteini eru skattlögð árlega miðað við gengi í lok ársins án tillits til þess hvort hagnaður hafi verið innleystur eða honum endurfjárfest. Þetta þýðir að fyrirtæki geta verið neydd til að selja sig út úr verðbréfasjóðum til að standa undir skattgreiðslum vegna hagnaðar sem aldrei hefur verið innleystur.
Skýringar á þessu misræmi hafa verið af skornum skammti. Grunnhugsunin um að fresta skattlagningu á meðan fjármagn er nýtt til endurfjárfestinga ætti jafn vel að eiga við um fjárfestingar í gegnum verðbréfasjóði eins og um beinar fjárfestingar á milli fyrirtækja. Þessi mismunun virðist fremur vera afleiðing ófyrirséðra áhrifa en meðvituð ákvörðun löggjafans.
Fjárfestingar einstaklinga í verðbréfasjóðum eru skattlagðar með hagstæðari hætti. Fyrir þremur áratugum var skattlagningu á einstaklinga breytt þannig að hagnaður af hlutdeildarskírteinum er ekki skattlagður fyrr en hann er innleystur. Rökin voru þau að árleg skattheimta væri íþyngjandi vegna sveiflna í gengi skírteinanna. Þessi rök eiga jafn vel við um fyrirtæki sem ættu að búa við sams konar fyrirkomulag.
Umræða um gjaldhlutfall fjármagnstekjuskatts var áberandi í kringum síðustu kosningar. En framkvæmd skattlagningar getur haft alveg jafn mikil áhrif á hegðun og lífskjör. Það væri bæði einfalt og mikilvægt skref fyrir nýja ríkisstjórn að lagfæra það misræmi sem gildir um fjárfestingar fyrirtækja í verðbréfasjóðum í dag. Tvær breytingar skipta þar sköpum:
Með þessum breytingum myndu stjórnvöld efla verðbréfasjóði á Íslandi og stuðla að skilvirkari dreifingu fjármagns, aukinni sérhæfingu og bættri nýtingu verðbréfamarkaða. Svo ekki sé minnst á grunnprinsipp um að ávinningur sé ekki tvískattlagður og að skattar séu ekki innheimtir fyrr en raunveruleg verðmæti hafa skapast.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 29. janúar 2025.