Viðskiptaráð Íslands

Blessað grasið

Kemur Stóra eftirsjáin á eftir Stóru uppsögninni?

Erlendis hefur mikið verið fjallað um The Great Resignation eða Stóru uppsögnina. Hugtakið er eignað Anthony Klotz, prófessor við háskóla í Texas, sem í viðtali við Bloomberg í maí í fyrra spáði bylgju uppsagna í Bandaríkjunum. Þar í landi hefur starfsmannavelta verið mæld með reglubundnum hætti í rúmlega tuttugu ár og samkvæmt þeim gögnum hafði Klotz rétt fyrir sér. Febrúar í ár var níundi mánuðurinn í röð þar sem yfir fjórar milljónir sögðu sjálfar upp störfum.

Samkvæmt servíettuútreikningi lögfræðings er þetta, miðað við höfðatölu, eins og um 4.000 manns segðu upp á Íslandi í hverjum mánuði, en ef horft er til atvinnuþátttöku væri fjöldinn líklega nær 5.000 manns. Á ársgrundvelli þýddi það að kringum fjórði hver á vinnumarkaði hætti sjálfviljugur.

Heimsfaraldrinum er kennt um þetta fyrirbæri, en sumir segja að það hafi verið hafið fyrr. Fólk yfirgefi frekar störf sem eru ekki krefjandi og séu hvort sem er líkleg til að hverfa með sjálfvirknivæðingu. Aðrir segja að þetta sé merki um hugarfarsbreytingu nýrra kynslóða þegar kemur að vinnu. Svo má leiða líkur að því að þetta geti einfaldlega verið smitandi - þegar einn hættir fari næsti maður að hugsa sinn gang.

Merki Stóru uppsagnarinnar sjást víðar en í Bandaríkjunum en þótt atvinnurekendur hérlendis tali um talsverða hreyfingu á fólki er ólíklegt að staðan sé jafnslæm. Hreyfanleiki er góður en mikil starfsmannavelta er neikvæð. Hún getur dregið úr starfsánægju og framleiðni, auk þess sem kostnaður við að missa starfsmann og ráða og þjálfa nýjan nemur um árslaunum.

En svo er þetta með grasið. Samkvæmt könnun, sem bandarískt ráðningafyrirtæki gerði nýlega meðal fólks sem skipti um starf, sagðist um helmingur sjá eftir gamla starfinu. Því eru nú hafnar vangaveltur um hvort á eftir Stóru uppsögninni komi Stóra eftirsjáin.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 28. apríl 2022 og á vb.is 30. apríl.

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024