Viðskiptaráð Íslands

Dýra innanlandsflugið hefur aldrei verið ódýrara

Það er óneitanlega þversagnakennt að innanlandsflug eigi undir höggi að sækja á sama tíma og ferðmannafjöldi hefur margfaldast, ferðalög hafa aldrei verið algengari og landsmenn sjaldan eða aldrei haft meira á milli handanna. Frá 2008-2017 jókst kaupmáttur launa um 24% og íbúum landsins fjölgaði um 7%. Engu að síður fækkaði farþegum í innanlandsflugi um 15% á sama tíma.

Þessi fækkun og hátt verð á innanlandsflugi hefur skapað mikla umræðu um að grípa þurfi til sértækra aðgerða til að örva innanlandsflugið. Heyrst hafa hugmyndir á við hina svokölluðu „skosku leið“ sem felst í því að ríkið niðurgreiði flugfargjöld fyrir íbúa í dreifðari byggðum. Á yfirborðinu virðist þetta ef til vill rökrétt skref til að auðvelda samgöngur og þar með styrkja byggð um land allt. Við nánari skoðun er það þó ekki augljóst. Opinberir styrkir og ívilnanir þurfa ætíð að vera vel ígrunduð því þau geta haft óæskileg hliðaráhrif. Í þessu samhengi er hættan sú að hin umrædda niðurgreiðsla birtist í hærri flugfargjöldum. Þannig væru skattgreiðendur að styrkja flugfélög í stað þess að styrkja samgöngur á landsbyggðinni.

Umræðan um niðurgreiðslur innanlandsflugs byggir á þeirri forsendu að innanlandsflug sé dýrt. Flestir eru sammála um að innanlandsflug sé oft dýrt fyrir flest fólk, en dýrt miðað við hvað? Flugfargjöld til útlanda? Söguleg flugfargjöld?

Finna má svar við báðum þessum spurningum með hjálp gagna frá Hagstofu Íslands. Miðað við flugfargjöld til útlanda virðist svarið vera nokkuð skýrt – innanlandsflug er hlutfallslega dýrara en áður miðað við millilandaflug. Flugfargjöld innanlands hafa t.d. hækkað um 68% frá árinu 2002 en til útlanda hafa þau aðeins hækkað um 27%. Í þessu samhengi má þó nefna að samkeppni í millilandaflugi á Íslandi hefur líklega aldrei verið meiri. Nýjustu tíðindi um fjárhag og afkomu flugfélaga bera það einnig með sér að svo lág flugfargjöld kunni að vera ósjálfbær.

Hvað með sögulega þróun? Til að átta sig á henni er líklega best að setja flugfargjöld í samhengi við tekjur fólks. Niðurstaðan er þessi: Flugfargjöld innanlands hafa, a.m.k. frá árinu 2002, aldrei verið lægri sem hlutfall af ráðstöfunartekjum meðal-Jóns og -Gunnu, eða miðgildi ráðstöfunartekna þeirra. Til að mynda eru flugfargjöld á þennan mælikvarða 37% lægri en 2002, 17% lægri en árið 2007 og heilum 44% lægri en fyrir aðeins fimm árum síðan, eða árið 2013. Sé horft á flugfargjöld almennt séð, bæði innanlands og til útlanda, þá þróuðust þau með áþekkum hætti og tekjur 1997-2002 svo ætla má að innanlandsflug sé ódýrara nú en það var 1997. Ef horft væri enn lengra aftur í tímann er mjög líklegt að fólk hafi þurft að eyða enn hærra hlutfalli tekna sinna í flugmiða innanlands, bæði vegna tekjuaukningar síðustu áratugi og tækniframfara í flugiðnaði.

Við viljum öll að um land allt sé blómleg byggð og að uppbygging, hvers eðlis sem hún er, sé ekki bundin við lítið horn á landinu. Það er þó ekki sjálfgefið að niðurgreiðsla flugfargjalda styðji við það markmið, sérstaklega þegar þau flugfargjöld hafa aldrei verið ódýrari. Á sama tíma horfum við á vanfjárfestingu í vegakerfinu um nokkurra ára skeið – væri kannski nær að byrja þar?

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Austurfrétt, þann 30. ágúst 2018.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024