Eftir að umræðan komst á flug um hverjir ættu rétt á úrræðinu eða ekki, hefur komið í ljós að mörg fyrirtæki nýttu sér ekki úrræðið þrátt fyrir að horfa fram á mikinn samdrátt og enn önnur hafa nú þegar greitt stuðninginn til baka eftir endurmat.
Þann 13. mars sl. tilkynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum að takmarka skyldi samkomur við 100 manns í fjórar vikur frá miðnætti 15. mars. Engin fordæmi voru fyrir slíku banni í lýðveldissögu Íslands. Engan óraði fyrir um framhaldið. Óvissan var gríðarleg.
Sama dag samþykkti ríkisstjórnin frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa, vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Markmið breytinganna, eins og það er orðað á vef Stjórnarráðsins „… er að aðstoða vinnuveitendur við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt, þar til aðstæður batna“. Ekki komu fram önnur skilyrði en þau að starfsemin hefði dregist saman vegna kórónaveirunnar.
Á vef Stjórnarráðsins var einnig hvatt til þess að vinnuveitendur minnkuðu frekar starfshlutfall starfsfólks tímabundið en að grípa til uppsagna og er þar haft eftir ráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni: „Ég vonast til þess að atvinnurekendur bregðist við þessum breytingum á þann veg að halda ráðningasamböndum við starfsfólk sitt eins og nokkur kostur er í stað þess að ráðast í uppsagnir.“ Sama dag hvatti ráðherra fyrirtæki til að nýta úrræðið í samtali við mbl.is „Hugsunin er auðvitað sú að hvetja fyrirtæki til þess að nýta sér þessa heimild vegna þess að við erum öll í þessu saman.“
Með þessu úrræði réttu stjórnvöld út hjálparhönd til að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir vegna gífurlegrar óvissu um framhaldið og tryggja afkomu heimila tímabundið, eða þar til aðstæður skýrðust. Fyrirtækin sömdu við starfsfólk um minnkun starfshlutfalls tímabundið og ríkið greiddi mismuninn upp að ákveðnu marki beint til launþega. Engar greiðslur fóru til fyrirtækjanna. Í staðinn var komið í veg fyrir uppsagnir. Fljótt varð ljóst að úrræðið myndi nýtast fjölda fyrirtækja og starfsfólki þeirra – og verða ein stærsta og mikilvægasta einstaka stuðningsaðgerð stjórnvalda frá upphafi.
Nú rúmum tveimur mánuðum síðar erum við á góðri leið út úr samkomubanninu. Umræður um hvaða fyrirtæki hafi átt rétt á að nýta sér hlutabótaúrræðið hófust og í umræðunni komu fram ýmis skilyrði sem almenningur taldi sanngjörn svo sem að fyrirtækin hefðu ekki greitt út arð vegna ársins 2019 eða að eiginfjárstaða þeirra væri ekki góð. Sum þeirra skilyrða eru eðlileg og skynsamleg. Vandinn er að ekkert slíkt er að finna í lögunum.
Brúarlánin, stuðningslánin, lokunarstyrkir og önnur úrræði stjórnvalda til að koma í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja voru með skýra ramma um það hverjir ættu rétt á að nýta sér þau og hverjir ekki. Sé hlutabótaleiðin skoðuð, lögin og ummæli ráðherra, er ljóst að rammi hennar er afar óskýr. Úrræðið var hugsað „vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda“ en ekki var kveðið á um hversu mikinn samdrátt eða á hvaða tímabili. Jafnframt segir í lögum um hlutabótaleiðina að „Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum og gögnum frá vinnuveitanda sem launamaður missti starf sitt hjá að hluta þar sem fram komi nánari rökstuðningur fyrir samdrætti í starfseminni, svo sem fækkun verkefna eða samdráttur í þjónustu.“ sem erfitt er að skilja öðruvísi en svo að það sé alfarið í höndum stofnunarinnar að meta réttmæti nýtingu úrræðisins.
Þegar úrræðinu var komið á um miðjan marsmánuð herjaði veiran á landsmenn, úrræði stjórnvalda þurftu að vinnast hratt og frumvörp voru keyrð í gegnum þingið. Í öllum asanum var hlutabótaleiðin samþykkt án skýrra skilyrða og því eru nú stjórnendur margra fyrirtækja að meta, í ljósi þess sem gerst hefur, hvort rétt hafi verið að þiggja hana eður ei. Hlutabótaleiðin verður framlengd, stjórnvöld ætla að læra af reynslunni og setja skýr skilyrði, þannig að fyrirtækin búi við réttarvissu.
Mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja í landinu er mikil og víðtæk – á kórónutímum sem endranær. Á það við um stór fyrirtæki jafnt sem lítil, sem nýttu sér líflínu stjórnvalda á tímum mikillar óvissu og töldu sig uppfylla skilyrði hlutabótaleiðarinnar. Eftir að umræðan komst á flug um hverjir ættu rétt á úrræðinu eða ekki, hefur komið í ljós að mörg fyrirtæki nýttu sér ekki úrræðið þrátt fyrir að horfa fram á mikinn samdrátt og enn önnur hafa nú þegar greitt stuðninginn til baka eftir endurmat.
Það er auðvelt að benda á það sem betur hefði mátt fara með því að horfa í baksýnisspegilinn – og er sá lærdómur mikilvægur atvinnulífinu og stjórnvöldum. En ekki er síður mikilvægt á tímum sem þessum að sýna skilning á ákvörðunum sem teknar voru í fullkominni óvissu, bæði um reglurnar sjálfar og hvað framtíðin bæri í skauti sér.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. maí 2020