Viðskiptaráð Íslands

Steinar í götu samrunaaðila

„Virk samkeppni er forsenda framleiðni- og hagvaxtar, en reglur sem eiga að tryggja hana mega ekki verða of íþyngjandi. Samkeppnislög þurfa að stuðla að heilbrigðu viðskiptaumhverfi án þess að skerða frjálst framtak að ósekju.“

Lísbet Sigurðardóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs.

Fyrr í haust kynnti atvinnuvegaráðherra áform um breytingar á samkeppnislögum, einkum er varða samrunaeftirlit. Í kjölfar samráðsferlis má gera ráð fyrir að frumvarp þess efnis verði lagt fram á Alþingi. Um tímabæra endurskoðun er að ræða, enda sker Ísland sig úr miðað við Norðurlöndin í mörgu tilliti þegar kemur að samrunaeftirliti og víða er tilefni til úrbóta í löggjöfinni.

Ný úttekt Viðskiptaráðs á samrunaeftirliti, „Á hlykkjóttum vegi“, sýnir að umgjörð og framkvæmd þess er meira íþyngjandi á Íslandi en í grannríkjunum, tekur lengri tíma og leiðir oftar til íhlutunar samkeppnisyfirvalda. Það hefur áhrif á fjárfestingu, nýsköpun og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Virk samkeppni er forsenda framleiðni- og hagvaxtar, en reglur sem eiga að tryggja hana mega ekki verða of íþyngjandi. Samkeppnislög þurfa að stuðla að heilbrigðu viðskiptaumhverfi án þess að skerða frjálst framtak að ósekju. Íslensk fyrirtæki keppa í sífellt alþjóðlegra rekstrarumhverfi á sama tíma og þá skiptir máli að eftirlitsaðilar leggi ekki stein í götu þeirra í meiri mæli en annars staðar.

Of lág veltumörk til trafala

Í fyrsta lagi eru veltumörk fyrir tilkynningarskylda samruna óvenju lág hér á landi, eða um fimmfalt lægri en á Norðurlöndum. Það þýðir að mun fleiri og smærri samrunar, þurfa að fara í gegnum taf- og kostnaðarsamt samrunaferli hjá Samkeppniseftirlitinu. Afleiðingin er meiri vinna fyrir eftirlitið og meiri kostnaður og óvissa fyrir íslensk fyrirtæki, jafnvel þegar samruninn hefur engin áhrif á samkeppni.

Margfalt fleiri mál færast á fasa II hérlendis

Í öðru lagi fer mun hærra hlutfall samrunamála í ítarlega rannsókn, svokallaðan fasa II, en annars staðar á Norðurlöndum. Þannig fór um 40% mála í fasa II á Íslandi á árunum 2015-23, á meðan meðaltalið á Norðurlöndum var einungis um 6% á sama tímabili. Ákvörðun um að færa mál í fasa II er að stórum hluta matskennd og ógagnsæ, þar sem hvorki eru til staðar lögfest skilyrði né rökstuðningsskylda vegna tilfærslu mála á fasa II. Víða á Norðurlöndunum hafa verið lögfest eða sett fram skýr viðmið og sums staðar lögfest skylda um rökstuðning þegar málum er vísað í fasa II.

Með tilkomu forviðræðna í samrunamálum hefur dregið nokkuð úr fjölda mála í fasa II. Hins vegar hefur reynslan sýnt að forviðræður geta framhlaðið málsmeðferð á samrunaaðila. Á þessu stigi gilda engin tímamörk eða rammi og síðustu tvö sumur hefur Samkeppniseftirlitið tilkynnt að það taki ekki við nýjum málum í átta vikur vegna sumarleyfa og anna.

Íhlutanir flestar á Íslandi

Í þriðja lagi hefur SKE oftast íhlutunum í samrunamálum á Norðurlöndum á undanförnum árum. Þannig lauk SKE 18% samrunamála með íhlutunum á árunum 2015-23 á meðan hlutfallið var 1-7% á öðrum Norðurlöndum. Af öllum íhlutunum innan EES á sama tímabili áttu 7,6% þeirra sér stað á Íslandi.

Samkvæmt nýjustu úttekt IMD viðskiptaháskólans í Sviss mælist skilvirkni samkeppnisumhverfisins á Íslandi einnig mun minni en á Norðurlöndunum. Ísland situr í 42. sæti, á meðan hin Norðurlöndin eru að meðaltali í 10. sæti, þrátt fyrir að samkeppnisregluverkið í þessum löndum beri að sama brunni. Þá rak SKE lestina meðal eftirlitsstofnana þegar kom að leiðbeiningum til eftirlitsskyldra aðila samkvæmt könnun nefndar um opinberar eftirlitsreglur frá árinu 2019.

Framúrkeyrslur og húsleitir

Ljóst má vera af framangreindu að þörf er á skilvirkara og einfaldara ferli og löggjöf samrunamála. Því miður ganga áform ráðherra í öfuga átt, en að frátalinni vísitöluhækkun veltumarka eru þar boðaðar auknar heimildir samkeppnisyfirvalda til að fara fram yfir lögbundna tímafresti og frekari rannsóknarheimildir, m.a. húsleitarheimildir, til að bregðast við ætlaðri rangri upplýsingagjöf. Slíkar breytingar myndu auka við tafir á þegar þungu samrunaferli og leiða til aukinna skerðinga á framtaki íslenskra fyrirtækja og einstaklinga í sífellt alþjóðlegra samkeppnisumhverfi.

Framangreind áform ríma ekki við sjónarmið þeirra sem helst þurfa að starfa eftir núverandi reglum, þ.e. forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja, en á undanförnum árum hefur af þeim einkum verið kallað eftir aukinni skilvirkni og einföldun í samrunaeftirliti. Mikilvægt er að ráðherra málaflokksins taki mið af þeim sjónarmiðum fremur en sjónarmiðum eftirlitsins sjálfs.

Sex tillögur til úrbóta

Viðskiptaráð fagnar þó því að ráðherra kalli eftir umsögnum snemma í endurskoðunarferlinu. Ráðið leggur til sex tillögur til úrbóta sem miða að því að færa umhverfi samrunaeftirlits nær því sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum. Þannig næst betra jafnvægi milli virkrar samkeppni og eðlilegrar framþróunar og hagræðingar:

  1. Fimmfalda veltumörk og endurskoða þau árlega m.t.t. verðlags.
  2. Afmarka kallheimild Samkeppniseftirlitsins með skýrum reglum og tímamörkum.
  3. Lögfesta leiðbeiningarskyldu Samkeppniseftirlitsins.
  4. Gæta skuli meðalhófs í gagnabeiðnum.
  5. Skilgreina forviðræður nánar að norrænni fyrirmynd.
  6. Lögfest verði skilyrði og rökstuðningskylda SKE fyrir tilfærslu mála á fasa II.

Skilvirkni og skýrar reglur eru lykillinn að því að tryggja bæði virka samkeppni og eðlilegt svigrúm fyrirtækja til vaxtar. Við fyrirhugaða endurskoðun á samkeppnislögum gefst kjörið tækifæri til að tryggja að löggjöfin endurspegli þann raunverulega ávinning sem getur falist í samrunum um aukna framleiðni, stærðarhagkvæmni og nýsköpun, á sama tíma og gætt er að jafnræði og heilbrigðri samkeppni. Það er því til mikils að vinna að ráðherra standi með atvinnulífinu og taki tillit til hagsmuna þess við endurskoðun laganna, svo tryggt verði að íslensk fyrirtæki starfi við sambærileg skilyrði og erlendir keppinautar þeirra og að samrunaeftirlit þjóni hagsmunum íslensks samfélags, en ekki íslensks eftirlitsiðnaðar.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, 22. október 2025.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024