Ekkert sérstakur vaxtastuðningur 

„Þótt margir gleðjist eflaust yfir því að fá millifært úr ríkissjóði er hér um skammgóðan vermi að ræða. Stuðningurinn hefur verðbólguhvetjandi áhrif með þenslu og hallarekstri, hefur neikvæð áhrif á hegðun og gagnast ekki þeim sem þurfa á stuðningi að halda.“

Ragnar S. Kristjánsson, sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs.

Í síðustu viku ákvað Skatturinn upphæðir sérstaks vaxtastuðnings til fólks með íbúðalán. Um er að ræða nýja stuðningsaðgerð sem ríkisstjórnin kom á fót til að greiða fyrir undirritun kjarasamninga. Stuðningurinn nær til um 50.000 manns og nemur allt að 150.000 kr. á mann. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs er 5-7 ma. kr. á þessu ári. 

Þótt margir gleðjist eflaust yfir því að fá millifært úr ríkissjóði er hér um skammgóðan vermi að ræða. Stuðningurinn hefur verðbólguhvetjandi áhrif með þenslu og hallarekstri, hefur neikvæð áhrif á hegðun og gagnast ekki þeim sem þurfa á stuðningi að halda. 

Verðbólga með hallarekstri og þenslu 

Sérstakur vaxtastuðningur vinnur gegn yfirlýstu markmiði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um að ná niður verðbólgu. Útgjöldin eru ófjármögnuð, sem þýðir að stuðningurinn eykur hallarekstur ríkissjóðs á árinu. Meiri hallarekstur í núverandi efnahagsástandi, þar sem verðbólga er há, vextir eru háir og ríkissjóður rekinn með 50 milljarða króna halla, er til þess fallinn að auka enn frekar verðbólguþrýsting og þ.a.l. fresta því að hægt verði að lækka vexti.  

Þá mun fjármagnið fara að hluta til beint út í einkaneyslu strax á þessu ári, þar sem stuðningnum má ráðstafa til að lækka afborganir lána. Innspýting sem þessi, sem hækkar ráðstöfunartekjur stórs hluta samfélagsins tímabundið, mun auka neyslu til skamms tíma litið og því vinna gegn markmiðum Seðlabankans um að ná verðbólgu niður og koma á ný á verðstöðugleika í landinu. 

Einnig verður að teljast umhugsunarvert að stjórnvöld ráðist í svo mikla útgjaldaaukningu til að mæta kröfum hagsmunasamtaka. Fyrirkomulag sem þetta, þar sem fjármunir skattgreiðenda eru notaðir sem skiptimynt fyrir frið á vinnumarkaði og stjórnmálamönnum gert erfitt fyrir að beita sér gegn svo umfangsmiklum útgjöldum, verður að teljast varhugavert. Eðlilegra er að útgjöld uppá marga milljarða séu að frumkvæði stjórnmálamanna sem kjósendur veita umboð til að fara með fjárveitingarvaldið.  

Of margir njóta stuðnings skattgreiðenda 

Úrræðið er jafnframt illa útfært. Ætlað er að stuðningurinn nái til 50.000 einstaklinga, en það er rúmlega helmingur þeirra sem eiga íbúð með áhvílandi láni. Ólíklegt verður að teljast að svo stór hluti markaðarins sé það illa staddur að þau þurfi á sérstökum stuðningi skattgreiðenda að halda. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur jafnframt hvatt stjórnvöld til að afmarka betur stuðning á húsnæðismarkaði, svo hann skili meiri árangri. Ljóst er að þessi aðgerð tekur ekki mið af þeim leiðbeiningum. 

Þá mun stuðningurinn hvetja til aukinnar skuldsetningar, en niðurgreiðsla á vaxtakostnaði einstaklinga skekkir mynd neytenda af raunverulegum kostnaði við að skulda og getur haft áhrif til hækkunar á fasteignaverði. Stjórnvöld hafa síðustu ár fært húsnæðisstuðning frá vaxtabótum yfir í önnur úrræði af þessum ástæðum. Sérstakur vaxtastuðningur er á skjön við þá stefnu. 

Ef stjórnvöld vilja að aðgerð líkt og sérstakur vaxtastuðningur skili árangri, verður henni að vera beint að þröngum hópi sem á í mestum erfiðleikum með að standa undir sínum húsnæðiskostnaði. Séu húsnæðisaðgerðir skilgreindar of vítt, þannig að þær nái til stórs hóps fólks, munu þær ekki skila árangri. Þessi sérstaki vaxtastuðningur er skólabókardæmi um aðgerð sem beint er að of stórum hópi fólks og mun því einungis ýta undir frekari verðbólgu, sem kemur verst niður á þeim hópi sem minnst hefur á milli handanna. 

Ragnar S. Kristjánsson
sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. júní 2024.

 

Tengt efni

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - H1 2024

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan ...
30. apr 2024

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023

Dauða­færi ríkis­stjórnarinnar til að lækka vaxta­stig

Viðureignin við verðbólguna er nú eitt brýnasta verkefnið á vettvangi ...
7. jún 2023