Ákveðinn fiðringur fór um mig þegar sænska vísindaakademían tilkynnti fyrr í vikunni hverjir hlytu Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár. Ekki að verðlaunin sjálf séu sérstakt áhugaefni hjá mér heldur vegna þess að í ár voru verðlaunin meðal annars veitt fyrir svör við þeirri grundvallarspurningu sem við höfum spurt okkur að til fjölda ára: Hvernig má tryggja varanlegar og sjálfbærar efnahagslegar framfarir?
Spurning þessi var einmitt þungamiðja þeirrar vinnu sem ráðgjafafyrirtækið McKinsey réðst í árið 2012 í leit að sjálfbærri hagvaxtarleið fyrir land og þjóð eftir erfiða tíma í kjölfar hrunsins. Útgáfa skýrslunnar markaði ákveðin tímamót í stefnumótun íslensks samfélags og varð fljótt hryggjarstykkið í málefnastarfi Viðskiptaráðs. Grunnstef skýrslunnar snéri að því að auka framleiðni í landinu og efla útflutningsgreinar. Á þessum tíma óraði engan fyrir uppgangi ferðaþjónustunnar sem varð fljótt lykilstoð í íslensku hagkerfi og ein forsenda þessa mikla viðsnúnings sem í raun varð.
En hvar stöndum við í dag? Hægja hefur tekið á hagvexti og erfitt er að segja til um hvaða geiri geti tekið stökk næst til að keyra áfram álíka uppgang og við höfum búið við undanfarin ár. Kannski er ágætt að staldra aðeins við og rifja upp þær tillögur sem fram komu í skýrslu McKinsey.
Hugvitsdrifinn útflutningur var þar forgangsmál; útflutningur sem ekki byggir eingöngu á staðbundnum auðlindum og lýtur því síður náttúrulegum vaxtaskorðum. Fyrirtækin sem falla hér undir eru einkum tækni- og nýsköpunarfyrirtæki sem þrífast best í umhverfi þar sem aðgengi að hæfileikaríku vinnuafli er gott, öflugar rannsóknir eru stundaðar í samvinnu við sterka háskóla, stuðningur við nýsköpun og þróun sýndur t.d. með ívilnunum og endurgreiðslu og rekstrarumhverfi er samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði.
Þessu virðist ríkisstjórn okkar ekki hafa gleymt þegar þau rituðu stjórnarsáttmálann en þar kemur m.a. fram skýr vilji þeirra til að styðja við hugvitsdrifna starfsemi og „bæta alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands [t.d.] með því að endurmeta fyrirkomulag á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum“. Aftur á móti virðist það hafa gleymst við gerð fjárlagafrumvarps þar sem gert er ráð fyrir 2,6% samdrætti á útgjöldum til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina, en það er önnur saga.
Romer, annar nýkrýndu Nóbelsverðlaunahafanna, heldur því fram að fjárfesting í mannauði, nýsköpun og þekkingu séu lykilþættir til að auka hagvöxt. Undirstrikar hann að sjálfbær árangur til lengri tíma byggist fyrst og fremst á skýrri stefnumótun hins opinbera og nefnir þar að stuðningur og ívilnanir til rannsókna og þróunarmála sem og menntamála séu forsenda framfara í samfélaginu.
Romer vill meina að tækniframfarir berist ekki bara til okkar tilviljanakennt með vindum og veðri heldur þurfi að huga að þeim eins og einhverju sem við getum raunverulega stjórnað. Þær gífurlegu framfarir sem við höfum orðið vitni að á okkar tímum séu því sprottnar af samvinnu sífellt fleiri einstaklinga sem tengjast þvert á lönd og þekkingu og deila uppgötvunum og framförum sem aftur skapi enn meiri framfarir á mettíma. Raunveruleg „rannsóknar- og þróunarríki“ heimsins sem munu uppskera öflugan og sjálfbæran hagvöxt til lengri tíma séu þær þjóðir sem munu stuðla að opnu samkeppnishæfu hagkerfi þar sem hindrunum nýsköpunar hefur verið rutt úr vegi og öflugt þekkingarsamfélag byggt.
Fiðringurinn sem um mig fór þegar nýir Nóbelshafar voru kynntir var líklega til kominn af þeirri einlægu trú að íslensk stjórnvöld ætli sér að standa við sínar fyrirætlanir um að setja hugvitsdrifinn útflutning í forgang og það strax. Þær þjóðir sem ekki kveikja á mikilvægi slíkrar stefnu skv. Romer munu dragast aftur úr og takmarka hagsæld almennings.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. október 2018.