Viðskiptaráð Íslands

Óþarflega íþyngjandi

Stundum er erfitt að skilja aðgerðir og ákvarðanir stjórnvalda öðruvísi en að það sé einbeittur vilji þeirra að valda tregðu og óhagræði í rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi.

Stór hluti regluverks á Íslandi er lögfestur til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands vegna EES-samningsins. Þegar slíkar innleiðingar eiga sér stað geta stjórnvöld valið á milli þess að innleiða reglurnar með sama hætti og tilskipanir Evrópusambandsins segja fyrir um, nýta sér undanþágur vegna smæðar landsins, eða útfæra reglurnar með meira íþyngjandi hætti. Nýjasta úttekt forsætisráðuneytisins sýndi að í þriðjungi tilfella eru EES-reglur innleiddar með meira íþyngjandi hætti en þörf er á. Að auki sinntu ráðuneytin ekki hlutverki sínu um að meta áhrif íþyngjandi ákvæða á atvinnulífið nema í sjö prósent tilfella.

Að auki er rökstuðningi oft ábótavant þegar breytingar eru gerðar á lögum og reglum og er nýlegt dæmi þess tillögur um hert skattaeftirlit þar sem m.a. á að koma á aftur skjölunarskyldu innlendra fyrirtækja um milliverðlagningu þremur árum eftir að undanþága um ákvæðið var leidd í lög. Engin skýring er gefin á því hvers vegna eða með hvaða hætti undanþágan gangi í berhögg við ákvæði EES-samningsins. Að auki er vitnað í reglur OECD sem eiga við um „Multinational Enterprises“ og viðskipti þeirra yfir landamæri. Frumvarpsdrögin sem liggja fyrir eiga við um innlend fyrirtæki og því á óskiljanlegum rökum byggð. Það er sérstaklega ámælisvert þar sem fyrirhuguð breyting mun hafa í för með sér kostnað sem hleypur á milljónum króna fyrir þau fyrirtæki sem þessar reglur eiga við um.

Byrði af regluverki leggst almennt þyngst á smá og meðalstór fyrirtæki, sem búa yfir minni fjárhagslegum styrk og sérfræðiþekkingu til að ráða fram úr þungu og flóknu regluverki. Hagfellt rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja er grundvallarþáttur í uppbyggingu nýsköpunar, aukinni samkeppni og auknum framleiðnivexti. Það ætti því að vera forgangsmál stjórnvalda að velja ekki óþarflega íþyngjandi leiðir við innleiðingu nýrra laga.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024