Á hátíðis- og tyllidögum, til dæmis á kjördag yfir hnallþórum og rjúkandi heitu kaffi, tala stjórnmálamenn hispurslaust um mikilvægi þess að lækka skatta á landsmenn. Um viljann skal ekki efast, en eins og allir vita sem hafa skemmt sér í góðra vina hópi, eru yfirlýsingar í slíkum gleðskap eitthvað sem ætti að taka með fyrirvara. Daginn eftir bankar raunveruleikinn upp á – málamiðlanir og endalaust áreiti sem þarf að bregðast við.
Hvort sem eitthvað í líkingu við ofangreint sé orsökin eða ekki þá er það staðreynd að skattbyrði Íslendinga hefur farið vaxandi á undangengnum árum. Í nýútgefinni staðreynd Viðskiptaráðs kemur fram að árið 1990 greiddu Meðal-Jón og -Gunna 17% af tekjum sínum í skatta, 21% árið 2000 og loks 24% árið 2018. Hlutfallið hefur aldrei verið hærra og það sem meira er, eru skattar á einstaklinga hlutfallslega hærri á Íslandi en í öllum hinum OECD-ríkjunum, nema Danmörku. Í Danmörku er skattkerfið nokkuð sérstakt þar sem almannatryggingar og lífeyrisgreiðslur eru að miklu leyti fjármagnaðar með tekjuskatti sem skekkir samanburðinn svo ekki er loku skotið fyrir að Ísland sé skattakóngur OECD en ekki einungis skattaprins.
Á sama tíma og hið opinbera kroppar í fleiri krónur á leiðinni á bankareikning launþega hefur ríkið ásamt öðrum hækkað annan launakostnað. Í nýlegri skýrslu Intellecon kemur til að mynda fram að launatengd gjöld hafi hækkað um 60% frá árinu 2000. Þar vegur þyngst hækkun lögbundins lífeyrissparnaðar úr 6% í 11,5% og þar á eftir hækkun tryggingagjalds úr 5% í 6,6%. Það kemur því vart á óvart að launakostnaður á vinnustund á Íslandi hafi verið sá þriðji hæsti í Evrópu árið 2018.
Með breytingum síðustu ára eru iðgjöld í lífeyrissjóði, að meðtöldum séreignasparnaði, því í flestum tilfellum orðin 19,5% af launum. Ekki þarf miklar rannsóknir til að sjá að það er býsna hátt hlutfall eiginlegs skyldusparnaðar og raunhæft er að ráðstöfunartekjur fólks muni í framtíðinni aukast við það að fara á lífeyri. Það er því sífellt verið að draga úr hvata launþega til að spara til efri áranna, með því að fjárfesta sjálft í hluta- og skuldabréfum, sem dregur úr skilvirkni markaða og er jafnvel til þess fallið að draga úr nauðsynlegu einkaframtaki.
Þessi þróun sýnir a.m.k. þrennt. Í fyrsta lagi er gott tilefni til að endurskoða ákveðna þætti lífeyriskerfisins og skapa almenningi hvata til að spara og þar með fjárfesta eitt og sér í íslensku atvinnulífi eða hverju sem fólk telur best. Í öðru lagi er ærið tilefni til að lækka skatta og leita leiða til að draga úr launakostnaði, sérstaklega nú þegar hægir á efnahagslífinu. Í þriðja og síðasta lagi þurfa stjórnmálamenn að fylgja eigin sannfæringu um að draga úr, eða a.m.k. halda aftur af, skattbyrði kjósenda alla daga, ekki bara á hátíðis- og tyllidögum.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist fyrst í Mannlífi 19. ágúst 2019