Nú hefur fjárlagafrumvarp næsta árs verið kynnt og kennir þar ýmissa grasa. Helst stendur upp úr að enn á að hækka skatta á atvinnulífið, að hluta þvert á gefin fyrirheit. Má þar nefna lækkun tryggingagjalds sem var ein forsenda kjarasamninga síðasta árs. Með þeim voru laun hækkuð umfram getu einstakra atvinnugreina og hefði lækkun tryggingagjaldsins gert þeim betur kleift að standa undir auknum kostnaði samninganna. Ekki verður því annað séð en að með því að viðhalda skatthlutfalli tryggingagjalds í fjárlögum næsta árs sé farið gegn yfirlýsingu stjórnvalda tengdri kjarasamningum síðasta árs.
Það sama á við um fyrirhugaðar breytingar á orku- og auðlindasköttum. Hluti samkomulags stjórnvalda, SA og stórnotenda raforku árið 2009 var að skatturinn félli brott að þremur árum liðnum, 31. desember 2012, gegn fyrirframgreiðslu tekjuskatts fyrirtækjanna. Þetta var staðfest af efnahags- og skattanefnd sem kvað m.a. á um að skattarnir skyldu í heild sinni falla brott í lok árs. Í fjárlagafrumvarpi nú er gert ráð fyrir að skatturinn vari áfram ótímabundið.
Starfshópur til málamynda?
Fyrirætlanir um hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu vekja einnig furðu. Taka má undir sjónarmið um samræmi í skattlagningu atvinnuvega. Slíkar áherslur eiga þó lítið skylt við skattastefnu núverandi stjórnvalda eins og sjá má af skattkerfisbreytingum síðustu ára (t.d. í sjávarútvegi og fjármálaþjónustu).
Mat á efnahagslegum áhrifum skattahækkana á ferðaþjónustu er einnig með öllu ófullnægjandi enda þar ekki horft til neikvæðra afleiðinga fyrir tengdar atvinnugreinar. Á meðan er ljóst að áframhaldandi uppbygging atvinnuvegsins mun skila auknum tekjum í sameiginlega sjóði þjóðarinnar“ eins og kom fram í tillögum nefndar iðnaðarráðherra um aðkomu ríkisins að skipulagi og fjármögnun í ferðaþjónustu árið 2008. Þá er sérlega ámælisvert að fyrirætlanir stjórnvalda um skattahækkun á miðjun næsta ári setja í uppnám atvinnugrein sem verðleggur þjónustu tvö ár fram í tímann.
Þá er rétt að geta þess að nýlega setti fjármálaráðherra starfshóp um skattlagningu ferðaþjónustugreina sem væntanlega er einnig ætlað að fjalla um vörugjöld á bílaleigubíla, sem samkvæmt fjárlagafrumvarpi á að hækka. Varla er hægt að líta öðruvísi en svo á að starf þessa hóps sé nú að mestu til málamynda.
Stjórnvöld ákveða fyrirkomulag hagræðingar
Þá er gert ráð fyrir að skattar hækki á fjármálafyritæki. Ef markmiðið með hækkun fjársýsluskattsins er að draga úr yfirbyggingu og óskilvirkni fjármálakerfisins, sem margt bendir til að sé til staðar, væri nær að nálgast málið með heildstæðari hætti í góðu samstarfi við viðkomandi fyrirtæki. Þá vekur nýtt og hærra þrep fjársýsluskattsins ákveðnar spurningar en samkvæmt frumvarpinu hvetur það til „...hógværðar við launaákvarðanir auk þess að hlífa störfum sem bera lægri laun með því að gera þau hlutfallslega ódýrari fyrir vinnuveitendur.“ Einstaklingar innan fjármálakerfisins með laun í efri þrepum þurfa því ekki aðeins að greiða umtalsvert hærri skatta í kjölfar þrepaskiptingar tekjuskatts heldur er skv. þessu jafnframt frekar hvatt til uppsagna í þeim hópi umfram aðra. Fjármálafyrirtækjum virðist jafnframt ekki eftirlátið að ákveða hvernig megi ná fram auknu hagræði.
Handahófskenndur sykurskattur
Að lokum er vert að nefna breytingar á fyrirkomulagi vörugjalda sem taka eiga meira mið af manneldismarkmiðum. Sambærilegar breytingar voru innleiddar árið 2009 með tilkomu svokallaðs sykurskatts. Skemmst er að minnast handahófskenndrar álagningar skattsins þar sem fjölmargar sykraðrar vörur voru undanskildar, sér í lagi þær sem framleiddar eru á vegum mjólkuriðnaðarins.
Engar skattahækkanir eftir 2012?
Þegar öllu er á botninn hvolft má ætla að fyrirhugaðar skattahækkanir næsta árs sýni að árangurinn í ríkisfjármálum sé ekki sá sem stefnt var að. Má þar vísa til ummæla fyrrverandi fjármálaráðherra í tengslum við fjárlagafrumvarp þessa árs þar sem m.a. kom fram að eftir árið 2012 ætti ekki að þurfa frekari skattabreytingar eða tekjuöflunaraðgerðir. Þá er ekki ósennilegt að nálægð við kosningar verði til þess að útgjöld eru aukin til málaflokka sem njóta almennrar hylli.
Vert er að sýna slíkum áformum ákveðinn skilning enda búið að skera skarpt niður á tilteknum sviðum síðustu ár. Vandinn er þó sá að ríkissjóður hefur ekki bolmagn til að standa undir auknum útgjöldum án þess að sækja frekari tekjur – sem ekki átti að þurfa ef marka má orð fyrrverandi fjármálaráðherra.