Viðskiptaráð Íslands

Sprengjusvæði

„Að skiptast á skoðunum er mikilvægt. Það væri þó til mikilla bóta að hafa í huga að þótt það sé alveg ókeypis að vera kurteis getur það samt verið mikils virði.“

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Ég veit ekki hvort fólk trúir því, en mér finnst ég stundum þurfa dálítið átak til að hafa skoðanir opinberlega á málum. Kannski liggur þar að baki 15 ára tímabil þar sem ég var viðloðandi fjölmiðla og sú skoðun mín (jú, ég hef alveg skoðanir) að það færi ekki vel á því að fjalla um mál og taka viðtöl en ræða um leið opinberlega hvað manni fyndist um menn og málefni.

Á þessu tímabili og jafnvel síðan voru samt sem áður nokkur svið sem mér fannst alveg óhætt að tjá mig um og ég hef raunverulega gaman af. Kettir eru eðlilega þar efstir á blaði og ég er í ófáum Facebook-hópum, erlendum og innlendum sem snúast um kisur, enda eru þær miklir gleðigjafar. Ég get líka nefnt íslenskt mál, sem mér þykir endalaust vænt um og langar alltaf til að hlúa að - og svo Eurovision. Ekki beinlínis nein sprengjusvæði, sem sagt.

Eða hvað?

Það eru nokkur ár síðan ég áttaði mig á því að fólk á kattaþráðum var farið að skamma hvert annað - eins og hunda. Einhverjum varð á að auglýsa kettlinga og fékk það óþvegið fyrir að vera ekki búinn að láta gelda læðuna sína. Ekki veit ég hvernig fólk heldur almennt að kettir verði til, en jæja… Í íslenskuhópunum er rifist um hvort megi leiðrétta fólk sem segir mér langar og hvort eigi að nota málfræðilegt karlkyn eða raunkyn eða bara hvorugkyn um allt. Ég held að ég þurfi svo ekki að fara ýtarlega yfir umræðuna í kringum Eurovision.

Að skiptast á skoðunum er mikilvægt. Það væri þó til mikilla bóta að hafa í huga að þótt það sé alveg ókeypis að vera kurteis getur það samt verið mikils virði.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 6. mars 2024.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024