Viðskiptaráð hefur skilað þriðju umsögn sinni um frumvarp mennta- og barnamálaráðherra um námsmat í grunnskólum. Ráðið fagnar því að nú sé áformað að leggja fyrir skyldubundin samræmd próf í íslensku og stærðfræði auk þess að birta niðurstöðurnar opinberlega. Hins vegar gagnrýnir ráðið að áfram eigi að nota ósambærilegar skólaeinkunnir sem lokamat nemenda út úr grunnskóla.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar framangreint frumvarp mennta- og barnamálaráðherra. Þetta er þriðja umsögn Viðskiptaráðs um málið. Fyrstu umsögninni var skilað þann 19. júlí 2024, þegar málið var á áformastigi. Annarri umsögn var skilað 2. september 2024 þegar drög að frumvarpi voru lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda. Umsögn þessi er rituð í framhaldi af og í samhengi við þær tvær. [1]
Frumvarp þetta er í grunninn nær óbreytt frá síðasta hausti. Viðskiptaráð fagnar því að frumvarpið innihaldi áfram þær breytingar sem gerðar voru þá. Þar vegur þyngst að grunnskólum verður nú skylt að leggja fyrir samræmd próf í íslensku og stærðfræði í 4., 6. og 9. bekk. Samhliða því er nú kveðið á um jákvæða skyldu ráðherra til birtingar upplýsinga um niðurstöður námsmats.
Alvarlegur annmarki ennþá til staðar
Þrátt fyrir þær framfarir sem hafa orðið á frumvarpinu til þessa hefur ekki enn verið tekið tillit til meginathugasemdar Viðskiptaráðs um að lokamat grunnskóla skuli vera samræmt. Þar til sá annmarki hefur verið lagfærður blasir við tvíþættur vandi. Í fyrsta lagi verður enginn samræmdur mælikvarði til staðar á gæði og árangur af grunnskólastarfi á Íslandi. Í öðru lagi munu tækifæri barna til framhaldsnáms ráðast af skólaeinkunnum, sem byggja á mismunandi mati milli skóla. Það er afstaða Viðskiptaráðs að samræmt lokamat sé lykilforsenda jafnræðis og gagnsæis í grunnskólakerfinu.
Yfirvöld hafa sjálf sýnt fram á að skólaeinkunnir eru ónothæfur mælikvarði til að bera saman gæði skólastarfs eða námsárangur. Einkunnaverðbólga hefur verið þrálát og stór hluti nemenda er með ranga skólaeinkunn miðað við raunfærni sína. Notkun skólaeinkunna sem lokamats grunnskóla þýðir að stjórnvöld geta ekki starfrækt skyldu sína um að tryggja börnum fullnægjandi menntun, því þau geta ekki fylgst með gæðum skólastarfs yfir alla grunnskólagöngu þeirra. Fyrir vikið fá börn ekki notið sömu tækifæra til að þróa með sér færni óháð búsetu. Yfirvöld vanrækja þannig skyldu sína um eftirlit með gæðum skólastarfs.
Bæjarstjórar Garðabæs og Kópavogs hafa lýst yfir áhyggjum af núverandi brotalömum og skoða nú upptöku eigin samræmds námsmats í grunnskólum sínum. [2] Örðugt er fyrir sveitarfélögin að öðrum kosti að átta sig á stöðu barna í mismunandi skólum innan þeirra og tryggja þeim þannig fullnægjandi menntun óháð búsetu.
Þá fela frumvarpsdrögin í sér að engin samræmd mæling mun liggja fyrir um grunnfærni eins og lesskilning og reikning við lok grunnskólagöngu. Inntaka nemenda í framhaldsskóla á fyrir vikið áfram að byggja á skólaeinkunnum. Framangreint misræmi í skólaeinkunnum þýðir að tækifæri barna til framhaldsnáms munu velta á búsetu þeirra ekki síður en færni þeirra.
Hér er ekki um mat Viðskiptaráðs að ræða heldur hafa niðurstöður af könnunum menntamálayfirvalda sjálfra sýnt að skólaeinkunnir eru ónothæfar sem samræmdur mælikvarði á færni. Menntamálastofnun kannaði þannig misræmi á milli á skólaeinkunna og samræmdra prófa í rannsókn frá árinu 2022. Niðurstaðan var eftirfarandi:
„35% nemenda búa við það að [skólaeinkunn] þeirra er líklega umtalsvert lægri eða hærri en hefði verið í öðrum skóla.“ „Ósamræmi er í hvernig námsmati er beitt eftir skólum.“ [3]
Önnur rannsókn Menntamálastofnunar frá sama ári sýndi fram á samfellda einkunnaverðbólgu frá því að byrjað var að nota skólaeinkunnir til grundvallar inntöku í framhaldsskóla. Í umfjöllun RÚV um niðurstöðurnar segir þannig:
„Fyrir rúmum fimm árum var gamla talna-einkunnakvarðanum, þar sem nemendum var gefin einkunn á bilinu 0 til 10, skipt út fyrir bókstafakvarða [...]. Ein af ástæðum þess að ráðist var í þessar breytingar voru síhækkandi meðaleinkunnir [...]. Þessi breyting virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri þar sem einkunnirnar hækka enn.“ [4]
Viðskiptaráð leggur því til að skyldubundin samræmd próf fari fram við lok grunnskólagöngu og verði notuð sem lokamat grunnskóla. Ráðið leggur því til að frumvarpinu verði breytt á þann veg að skyldubundin samræmd próf verði haldin í lok 4., 7., og 10. bekkjar í stað 4., 6. og 9. bekkjar. Sú útfærsla hefur þann viðbótarávinning í för með sér að samræmd mæling fæst á færni nemenda við lok hvers skólastigs - yngsta stigs, miðstigs og unglingastigs. Það veitir betri mynd af stöðu þeirra nemenda sem færast á milli skóla eða deilda þegar á nýtt skólastig er komið.
Undanþágur og óskýrt orðalag grafa undan markmiðum
Viðskiptaráð gerir athugasemd við opna heimild skólastjóra til að veita undanþágur frá fyrirlagningu skyldubundinna samræmdra prófa. Jafnframt gerir ráðið athugasemd við heimild ráðherra til þess sama vegna „óviðráðanlegra aðstæðna.“ Að mati ráðsins ætti að fjarlægja báðar heimildir. Undanþága frá samræmdu námsmati ætti að þurfa aðkomu Alþingis rétt eins og raunin er með almenna skólaskyldu.
Þá þyrfti orðalag frumvarpsins að vera skýrara á sumum stöðum. Setningar eins og „ekki fer alltaf saman að leggja áherslu á einstaklingsmiðað nám en nota sama matstæki fyrir alla nemendur“ ættu til dæmis einvörðungu að eiga við um valfrjálst samræmt námsmat, en ekki skyldubundið samræmt námsmat. Þá er stundum talað um próf en stundum um matstæki. Þetta þyrfti að skýra betur, til dæmis með því að tala um samræmd próf þegar rætt er um skyldubundna hlutann en matstæki þegar rætt er um valfrjálsa hlutann.
Loks ætti opið fyrirlagningartímabil einungis að eiga við um valfrjálsa hluta námsmatsins. Að mati Viðskiptaráðs ættu skyldubundnu samræmdu prófin að fara fram á sama tíma til að þau séu sannarlega samræmd.
Grundvallarmunur á innra mati og mati á gæðum skólastarfs
Viðskiptaráð fagnar þeirri viðleitni sem felst í frumvarpinu til þess að bæta námsmat í grunnskólum og tryggja skólum aðgang að fjölbreyttum matstækjum. Hins vegar telur ráðið mikilvægt að gera skýran greinarmun á ólíkum hlutverkum námsmats innan skólakerfisins. Gera þarf greinarmun á námsmati sem er annars vegar ætlað til innra starfs skólanna, og hins vegar mati sem á að tryggja gæði skólastarfs og tryggja börnum jafnræði.
Í frumvarpinu er þessu blandað saman og talað er um að skyldubundið samræmt námsamt eigi að nýtast til innra starfs skólanna. Það er röng nálgun að mati Viðskiptaráðs. Skólum á að vera frjálst að notast við samræmt eða ósamræmt námsmat til að efla skólastarf með þeim hætti sem kennarar og stjórnendur telja farsælast til að efla færni nemenda. Svokallaður Matsferill getur verið öflug verkfærakista í því samhengi með margvísleg mælitæki sem skólar geta nýtt sér. Tilgangur með skyldubundnu samræmdu námsmati er annar. Hann er að tryggja fullnægjandi eftirlit og árangur af skólastarfi auk þess að tryggja börnum jafnræði.
Tryggjum samræmt og gagnsætt lokamat
Viðskiptaráð leggur til að frumvarpinu verði breytt þannig að skyldubundin samræmd próf verði haldin í lok 4., 7., og 10. bekkjar í stað 4., 6. og 9. bekkjar. Þar verði prófuð færni nemenda í lestri, reikningi og náttúruvísindum líkt og í PISA. Niðurstöður þessara prófa verði birtar opinberlega með sundurgreindum hætti niður á skóla. Þá verði niðurstöður samræmdra prófa í 10. bekk notaðar sem lokamat grunnskóla og til grundvallar inntöku í framhaldsskóla.
Þessar breytingar tryggja að árangur og samkeppni skipti máli í skólakerfinu á ný og uppfylla grundvallarkröfu um að öll börn búi við jöfn tækifæri óháð búsetu.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.
---
Tilvísanir:
1 Sjá umsögn Viðskiptaráðs (júlí 2024): „Brotið gegn jafnræði í grunnskólum“. Slóð: https://vi.is/umsagnir/namsmat. Sjá einnig umsögn Viðskiptaráðs (september 2024): „Þríþættar framfarir en alvarlegur annmarki“. Slóð: https://vi.is/umsagnir/namsmat-2
2 Sjá mbl.is (8. júlí 2024): „Mistök gerð: Mun heimsækja alla skóla Kópavogs“. Slóð: https://mbl.is/frettir/innlent/2024/07/08/mistok_gerd_mun_heimsaekja_alla_skola_kopavogs/. Sjá einnig mbl.is (30. desember 2024): „Verðum að grípa til ráðstafana sjálf“. Slóð: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/12/30/verdum_ad_gripa_til_radstafana_sjalf
3 Menntamálastofnun (2022): „Athugun á samræmi og ósamræmi í lokamati grunnskóla og niðurstöðum samræmdra könnunarprófa“
4 Sjá frétt á RUV.is (2022): „Meðaleinkunnir í grunnskóla fara enn hækkandi“. Slóð: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2022-10-17-medaleinkunnir-i-grunnskola-fara-enn-haekkandi. Rannsókn Menntamálastofnunar er frá árinu 2022 og ber heitið „Einkunnaverðbólga í lokamati grunnskóla á árunum 2016-2022“