Viðskiptaráð Íslands

Tækifæri til breytinga

Ríkisstjórnin hélt, en það þýðir það ekki að allt þurfi að vera eins og á síðasta kjörtímabili.

Þessar kosningar snerust mikið um allskonar loforð, sem er svo sem engin nýlunda. VÍ og SA lögðu mat á þessi loforð og komust að þeirri niðurstöðu að þeir sem dýrast lofuðu, Sósíalistar, myndu um það bil tvöfalda hallarekstur ríkissjóðs. VÍ lagði líka staðreyndakönnun fyrir frambjóðendur fyrir kosningar sem almenningur fékk svo að spreyta sig á og í stuttu máli var niðurstaðan kjósendum í hag. Kjósendur eru nefnilega engir vitleysingar, enda höfnuðu þeir yfirboðunum og sýndu að þeir sjá í gegnum óraunhæf loforð sem litlar eða engar líkur eru á að komist nokkurn tímann til framkvæmda.

Ríkisstjórnin hélt, en það þýðir það ekki að allt þurfi að vera eins og á síðasta kjörtímabili. Nú er lag að stokka upp verkefni stjórnarráðsins, færa málefni milli ráðuneyta og skerpa á ýmsum áherslumálum. Ráðuneyti sem héldi sérstaklega utan um nýsköpun, rannsóknir og þróun og erlenda fjárfestingu, með það að markmiði að styðja við mikilvæga verðmætasköpun er ein hugmynd. Svo má velta því fyrir sér hvort sjálfbær orkunýting og orkuskipti eigi ekki samleið með loftslagsmálum. Að skýra verkefni skiptir líka máli. Það er ekki augljóst að t.d. húsnæðis- og mannvirkjamál eigi heima í félagsmálaráðuneyti, heldur frekar í innviðaráðuneyti, með samgöngumálum og skipulagsmálunum sem nú eru undir umhverfisráðuneytinu. Öll menntastigin þurfa athygli og það væri því til mikilla bóta að íhuga hvort ekki megi gefa nýjum menntamálaráðherra, sem nú sinnir fjölmörgum öðrum málasviðum, svigrúm til að einbeita sér að þeim.

Ríkisstjórn síðasta kjörtímabils lagði áherslu á stöðugleika og meirihluti kjósenda greiddi þeirri stefnu atkvæði. Komist flokkarnir þrír að þeirri niðurstöðu að þeir vilji halda áfram samstarfi er mikilvægt að horfa til þess að nýjar áherslur og markvissar breytingar geta einmitt verið grundvöllur stöðugrar sóknar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 30. september 2021.

Tengt efni

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024

Ólympíuleikar í loftslagmálum

"Ísland er ekki lítið land. Ísland er stórasta land í heimi," sagði Dorrit …
21. ágúst 2024