Viðskiptaráð Íslands

Ríkið veit ekki alltaf best

Ákvarðanir sem hið opinbera tekur fyrir hönd borgaranna geta gert meira ógagn en gagn. Stjórnvöld verða að treysta fólki og koma ekki í veg fyrir nauðsynlega framþróun að óþörfu.

Gildar ástæður geta verið fyrir því að fela öðrum að annast lyfjakaup sín. Í sumum tilfellum er það beinlínis nauðsynlegt. Blessunarlega er það mögulegt með því að veita öðrum umboð til þess fyrir sig og þökk sé tæknilausnum nútímans er hægt að sjá um lyfjakaup á sófanum heima. Þannig geta til að mynda aldraðir foreldrar fengið börn sín til að panta lyf fyrir sig í gegnum netforrit og fengið þau heimsend innan klukkustundar. Slík þægindi voru ekki fyrir hendi fyrir nokkrum árum og er tilefni til að fagna framförum sem einfalda líf okkar.

Nú vilja stjórnvöld koma í veg fyrir þessi þægindi. Taki fyrirhuguð reglugerð heilbrigðisráðherra gildi verður einstaklingum ómögulegt að fá upplýsingar um lyfjaávísanir annars einstaklings án þess að sérfræðilæknir hafi vottað um veikindi eða fötlun hans. Þannig verður það erfiðleikum háð að annast lyfjakaup fyrir aðra þegar ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaða lyf læknir hefur ávísað viðkomandi. Þá er komið í veg fyrir, að upplýsingar um lyf séu veittar með rafrænum hætti og þannig lokað á þann möguleika að annast lyfjakaup fyrir aðra með tæknilausnum sem þegar standa til boða.

Ákvarðanir sem hið opinbera tekur fyrir hönd borgaranna geta gert meira ógagn en gagn. Í þessu tilfelli ætla stjórnvöld að banna einstaklingum að veita öðrum umboð til að sjá upplýsingar um lyf og annast lyfjakaup fyrir sig með einföldum og öruggum hætti. Þetta mun að óbreyttu gerast þrátt fyrir að í dag séu umboð undirrituð með rafrænum skilríkjum og tæknilausnir tryggðar með sama hætti. Jafnframt er persónuskilríkja krafist við afhendingu og því ekki að sjá að öryggið skorti. Það er mikilvægt að stjórnvöld láti einstaklingum eftir sjálfsagt frelsi til að taka ákvarðanir um eigið líf. Þær hindranir sem lagðar eru til í fyrirliggjandi reglugerð takmarka lífsgæði borgaranna og leggja stein í götu nýsköpunar í lyfsölu. Heilbrigðiskerfið þarf á því að halda að nýsköpun vaxi og dafni. Snjallverslun er framtíðin í lyfsölu sem og öðrum atvinnugreinum. Stjórnvöld verða að treysta fólki og koma ekki í veg fyrir nauðsynlega framþróun að óþörfu. Ríkið veit nefnilega ekki alltaf best.

Agla Eir er lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands og Heiðrún Björk er verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist fyrst á visir.is þann 28. júní 2021.

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024