Það hefur verið keppikefli margra að koma á skilvirkum og fjölbreyttum leigumarkaði á Íslandi. Jafnaðarmenn og verkalýðsfélög hafa meðal annarra verið talsmenn þessa markmiðs sem er vissulega gott og verðugt þar sem fjölbreytni í möguleikum til búsetu eru öllum til hagsbóta.
Á síðustu árum hafa verið tekin skref í þessa átt ekki síst með tilkomu tveggja stórra leigufélaga á almennan leigumarkað. Þó má setja fyrirvara við að segja félögin „stór“, þar sem samanlögð hlutdeild þeirra á húsnæðismarkaði er innan við 20%. Félögin hafa skapað umgjörð og tækifæri sem voru ekki til staðar áður, ekki síst hvað varðar möguleika á langtímaleigu og þjónustu sem er ekki á færi einyrkja og minni aðila að veita.
Því er lítið annað hægt að gera en að klóra sér í höfðinu yfir viðbrögðum og afstöðu verkalýðsforystunnar og annarra sem aðhyllast öflugan leigumarkað til leigufélaganna tveggja. Ekki síst þegar litið er til þess að félögin berjast í bökkum við að tryggja rekstrarlegan grundvöll sinn og ná niður fjármagnskostnaði sem er mjög hár. Bæði þegar litið er til vaxtastigs í samanburði við önnur lönd en einnig í samanburði við önnur kjör hérlendis.
Vaxtakjör leigufélaganna eru lakari en þau kjör sem bjóðast einstaklingum á íbúðamarkaði og svipar til þeirra kjara sem leigufélög með atvinnuhúsnæði hafa en eru ívið lakari þó ef eitthvað er. Í raun ættu vaxtakjör íbúðarleigufélaga á skilvirkum markaði að öðru jöfnu vera betri en félaga með atvinnuhúsnæði enda eru sveiflur alla jafna minni á íbúðarhúsnæði og það auðveldara í endursölu. Ein skýring á því að íbúðarleigufélögin ná ekki betri kjörum gæti falist í háttalagi verkalýðsforystunnar.
Hafa hótanir áhrif á leiguverð?
Háttalag verkalýðsforystunnar skapar orðsporsáhættu fyrir fjárfesta sem getur gert það að verkum að þeir veigra sér við að fjárfesta í leigufélögunum eða gera það á hærri vöxtum. Ekki er ætlast til þess að verkalýðsforystan beri hag fjárfesta sérstaklega í brjósti, en ýmislegt bendir til þess að háttalag hennar hafi torveldað fjármögnun öflugra leigufélaga sem er forsenda þess að hægt sé að bjóða hagstæða leigu á almennum markaði.
Þetta sést best á nýjasta útspili VR, sem er tilraun til þess að beygja banka í miðju kaupferli á móðurfélagi annarra þessara félaga, að vilja sínum með hótunum. Í því samhengi má spyrja sig, hefur þessi gjörningur í för með sér að álitlegra væri að fjármagna starfsemi leigufélaganna sem eykur líkur á að þau nái fjármagnskostnaði sínum niður og skapi þar með svigrúm til að lækka leigu?
Skiljanlegra væri ef gremjan beindist einmitt að fjárfestunum sjálfum, sem ættu að sjá tækifæri í að byggja upp öflugan leigumarkað, sem myndi um leið afmá framangreinda áhættu sem gæti svo aftur leitt til lækkaðrar leigu. Er nema von að maður spyrji sig hvað verkalýðsforystunni gengur til? Því hún er beint og óbeint með orðum sínum og gjörðum að auka líkur á því að aðstæður á leigumarkaði versni og leiguverð hækki.
„Þeim var ég verst er ég unni mest,“ sagði Guðrún Ósvífursdóttir í Laxdælu. Formaður VR ætti að staldra við og velta fyrir sér hvort þau orð eigi ekki við um hann líka.