Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Kauphöll Íslands áttu fyrir röskum fimm árum frumkvæði að því að setja fram leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja. Með þessum leiðbeiningum var stefnt að því að skapa meiri festu og gegnsæi í stjórn fyrirtækja og efla traust. Mörg fyrirtæki tóku upp þessar leiðbeiningar en þær verða á næstunni æ fyrirferðarmeiri í umræðu um stjórnun fyrirtækja hérlendis. Miklu skiptir að traust á íslenskum fyrirtækjum verði endurbyggt og þannig sé opnað fyrir erlent fjármagn til starfsemi þeirra og fjárfestinga. Leiðbeiningar af þessu tagi eru liður í því.
Nú hafa þessi sömu samtök ásamt Kauphöll Íslands hafið vinnu við gerð tillagna um stjórnarhætti hinna nýju ríkisbanka. Stefnt er að því að hópurinn eigi víðtækt samráð við ýmsa hagsmunaaðila í þeirri vinnu sem framundan er. Meðal annarra hefur verið rætt við ASÍ, fulltrúa stjórnmálaflokka o.fl. Formaður vinnuhóps um stjórnarhætti banka og fjármálafyrirtækja er Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Markmið með reglum um stjórnhætti er að starfsemi banka í ríkiseigu verði gerð gegnsærri og reynt að koma í veg fyrir misnotkun valds, s.s. að pólitísk afskipti ráði för í útlánum ríkisbanka. Slíkt myndi hafa neikvæð áhrif á íslenskt viðskiptalíf og grafa undan einkastarfsemi í fjármálageira sem enn er til staðar. Fyrir liggur að ríkisbankarnir munu taki ákvarðanir um framtíð margra íslenskra fyrirtækja, sem er vald sem fara verður með af hófsemi.
Stefnt er að því að drög að tillögum um stjórnarhætti fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins verða kynnt á næstu vikum.