Viðskiptaráð Íslands

Tölvan segir nei

Fyrr í mánuðinum bárust fréttir af ráðþrota japanskri konu, Momo Hayashi, sem hafði verið synjað um áframhaldandi dvalarleyfi á Íslandi. Ferðaþjónustufyrirtækinu, sem hún starfar hjá, var neitað um atvinnuleyfi henni til handa og sagt að auglýsa starfið á Evrópska efnahagssvæðinu á meðan Momo var gert að yfirgefa landið innan 30 daga.

Momo sem hefur stundað nám í íslensku við Háskóla Íslands í þrjú ár, talar hana reiprennandi, ásamt ensku og japönsku, opnaði nýverið verslun í miðbænum með hönnunarvörum sem hún vinnur úr endurnýjanlegum efnum. Hún hefur lagt metnað sinn í að byggja upp líf og starfsframa hér á landi síðastliðin ár en fær í dag enn engin svör við fyrirspurnum vegna brottvísunarinnar önnur en þau að „vegna sumarleyfa starfsmanna er ekki hægt að verða við ósk um fundartíma,“ og aðeins 10 dagar eftir af dvalarleyfi hennar.

Eflaust eru stjórnvöld að fara í einu og öllu eftir laganna hljóðan í þessu máli en ég velti fyrir mér hvort við séum almennt að fæla frá fólk sem hefur byggt upp líf hér á landi, jafnvel lært tungumálið eða ráðist í fyrirtækjarekstur, með öllum þeim áskorunum sem viðskiptaumhverfið hér krefst, einungis vegna þess að tölvan mælir gegn því (e. computer says no) en allt annað mælir með því?

Lönd um allan heim keppast við að laða til sín hæft og fjölbreytt starfsfólk því slíkt sýnir sig að skipta sköpum við að efla samkeppnishæfni þjóðar og hagsæld til lengri tíma. Á tímum alþjóðavæðingar og gífurlegrar samkeppni veigrar fólk sér ekki við því að flytja landa og jafnvel heimsálfa á milli til að sinna sínu óskastarfi. Markmið núverandi regluverks getur ekki verið að halda frá Íslandi öflugu fólki sem vill lifa hér og starfa, sé svo þarf að breyta því.

Ásta S.Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Endahnúti Viðskiptablaðsins þann 25. júlí, 2019

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024