Aðgerðir í þágu fyrirtækja

Ríkisstjórnin kynnti í dag aðgerðaáætlun í þágu íslenskra fyrirtækja. Aðgerðum ríkisstjórnarinnar ber að fagna enda staða atvinnulífsins mjög alvarleg um þessar mundir. Algert forgangsmál er að tryggja viðunandi rekstrarumhverfi fyrirtækja enda er öflugt atvinnulíf grunnforsenda hagsældar.

Aðgerðirnar eru mikilvægt skref í rétta átt og þeim þarf að fylgja eftir með markvissum hætti. Engu að síður þarf að koma til víðtækari og öflugri aðgerða ef tryggja á að hjól atvinnulífsins snúist áfram og að endurreisn hagkerfisins gangi eins greitt fyrir sig og mögulegt er. Í þessu sambandi minnir Viðskiptaráð á nýlega skoðun ráðsins, "Aðgerðir í þágu atvinnulífs", sem kom út í síðasta mánuði, en sumar aðgerðir ríkisstjórnarinnar taka mið af tillögum Viðskiptaráðs. Skoðun Viðskiptaráðs má nálgast hér.

Þau tólf atriði sem ríkisstjórnin leggur til í aðgerðaáætluninni eru eftirfarandi:

1. Stjórnvöld gera bankaráðum hinna nýju banka að setja sér skýrar viðmiðunarreglur um fyrirgreiðslu við fyrirtæki í landinu með það að markmiði að vernda störf og stuðla að áframhaldandi starfsemi lífvænlegra fyrirtækja. Reglurnar taki m.a. til lengingar lána, niðurfærslu skulda, breytingar lána í eigið fé og sameiningar fyrirtækja. Settar verði reglur sem tryggi gegnsæi í ákvarðanatöku bankanna og hlutlæga fyrirgreiðslu, þar sem hugað verði að samræmdum vinnubrögðum gagnvart fyrirtækjum. Innra eftirlit bankanna verði eflt

2. Stofnuð verði sérstök eignaumsýslufélög á vegum bankanna sem hafi umsjón með eignar-hlutum í fyrirtækjum, þar sem ákveðið hefur verið að breyta skuldum í eigið fé.

3. Skipaður verði óháður umboðsmaður viðskiptavina í hverjum banka. Skal hann m.a. hafa það hlutverk að gæta þess að viðkomandi banki mismuni ekki viðskiptavinum með óeðlilegum hætti, að ferli við endurskipulagningu fyrirtækja og aðrar mikilvægar ráðstafanir sé gagnsætt og skráð og að bankinn gæti að samkeppnissjónarmiðum. Bankaráð velji umboðsmann í hverjum banka og tryggi að hann geti sinnt eftirliti sínu.

4. Við endurskipulagningu fyrirtækja verða valdar leiðir sem efla samkeppni eða hamla samkeppni minnst.  Á sama hátt verði svigrúm til að draga úr fákeppni eða markaðsráðandi stöðu nýtt sem kostur er. Þeim tilmælum er beint til bankaráða að hafa hliðsjón af þeim meginreglum um samkeppnissjónarmið sem koma fram í áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008.

5. Ríkisstjórnin mun liðka fyrir stofnun endurreisnarsjóðs, öflugs fjárfestingasjóðs atvinnu-lífsins með þátttöku lífeyrissjóða, banka og annarra fjárfesta, þar á meðal erlendra. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita sér fyrir lagasetningu sem rýmkar heimildir lífeyrissjóða til að taka þátt í slíkum fjárfestingum innanlands.

6. Ríkisstjórnin hvetur til þess að í fjárfestingastefnu sinni taki endurreisnarsjóður m.a. tillit til sjónarmiða er lúta að góðum stjórnunarháttum og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja, þar á meðal áherslu fyrirtækja á að viðhalda eða fjölga störfum. Auk þess verður lögð áhersla á launastefnu, jafnréttisstefnu, umhverfisstefnu, framlög til rannsókna og þróunar, mikilvægi starfsemi fyrir grunnþjónustu samfélagsins o.s.frv.

7. Ríkisstjórnin lýsir yfir vilja til að greiða fyrir uppgjöri við erlenda kröfuhafa með því að bjóða þeim hlutafé í nýju bönkunum, m.a. í því skyni að tryggja endurfjármögnun bank-anna, fjölbreyttara bankaumhverfi og greiða fyrir eðlilegum lánaviðskiptum innlendra aðila og erlendra banka.

8. Fyrirtækjum sem uppfylla að öðru leyti skilyrði laga verður gert kleift að gera ársreikninga upp í erlendri mynt með lagasetningu sem gildi afturvirkt frá 1. janúar 2008.

9. Stjórnvöld greiði með lagasetningu fyrir langtímaeign lífeyrissjóða á fasteignum sem þeir hafa lánað fyrir. Þannig má bjóða einstaklingum og fyrirtækjum sem missa fasteignir sínar að búa eða starfa áfram í fasteigninni með því að leigja hana af lífeyrissjóðunum.

10. Lögð verði sérstök áhersla á mannaflsfrekar atvinnuskapandi aðgerðir á vegum ríkisins Leitað verði eftir samstarfi við sveitarfélög um tímasetningu framkvæmda með það fyrir augum að standa vörð um atvinnu fólks og auka hagkvæmni.

11. Stjórnvöld munu beita sér fyrir endurskoðun á ákvæðum hlutafélagalaga, skattalaga og annarra laga í því skyni að auðvelda stjórnendum fyrirtækja að komast í gegnum tímabundna erfiðleika vegna efnahagsástandsins

12. Ríkisstjórnin mun í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins fara yfir nýsettar reglur um gjaldeyrishömlur sem ætlað er að styrkja gengi krónunnar til að takmarka neikvæð hliðaráhrif þeirra eins og kostur er.

Yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtæja má nálgast í heild sinni hér.

Tengt efni

Hitam(ál) – Hvað er málið með álið?

Hugmyndir um takmörkun á stóriðju hér á landi annars vegar og samdrátt í losun á ...
3. apr 2023

Ekki svigrúm til aukinna útgjalda

Umsögn Viðskiptaráðs um fjármálaáætlun
16. maí 2022