Viðskiptaráð Íslands

Forðast ber skattahækkanir

Undanfarin ár hefur hið opinbera skilað afgangi í rekstri sínum enda hafa skatttekjur vaxið með miklum hraða. Í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins er ljóst að allir tekjustofnar hins opinbera munu dragast verulega saman og verg skuldastaða versna til muna. Samkvæmt bráðabirgðamati stjórnvalda er áætlað að vergur kostnaður vegna innstæðutrygginga og endurfjármögnunar fjármálakerfisins nemi um 80% af landsframleiðslu. Að viðbættum kostnaði af auknum halla hins opinbera árið 2009 er gert ráð fyrir að vergar skuldir hins opinbera aukist úr 29% af landsframleiðslu í lok árs 2007 í 109% af landsframleiðslu í árslok 2009.

Samdráttur í skatttekjum og stórauknar vaxtagreiðslur munu því setja hinu opinbera verulegar skorður á næstu árum. Samkvæmt viljayfirlýsingu stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs, leiðrétt fyrir hagsveiflu, verði orðin jákvæð árið 2011 og í kjölfarið hefjist markviss niðurgreiðsla skulda. Aðhaldssamri stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum ber að fagna enda grundvallarþáttur í endurreisn hagkerfisins. Miðað við vænta hagþróun næstu ára liggur því fyrir að stjórnvöld hafa tvo kosti til að brúa þann fjárlagahalla sem þau standa frammi fyrir. Annað hvort þarf að skera niður útgjöld eða auka skattheimtu umtalsvert.

Viðskiptaráð telur mikilvægt að stjórnvöld velji fyrri leiðina. Fjárhagsstaða einstaklinga og heimila er nú þegar í molum og ekki á það bætandi með hækkun skatta. Þrátt fyrir góða afkomu hins opinbera síðustu ár hafa útgjöld vaxið með miklum hraða og því ljóst að umtalsvert svigrúm er til hagræðingar í rekstri þess. Um þetta hefur Viðskiptaráð ítrekað fjallað á undanförnum árum. Minni umsvif hins opinbera myndu einnig draga úr fjárþörf þess og skapa mikilvægt athafnarými fyrir einkaaðila. Að lokum er ekki fyrirséð hver áhrif skattahækkana yrðu við þær viðkvæmu aðstæður sem ríkja í efnhagslífinu. Hætt er við að skattahækkanir leiði til enn frekari samdráttar sem myndi þrengja skattstofna og mögulega draga úr heildarskatttekjum á endanum. Í ljósi þess er skynsamlegt að forðast skattahækkanir eftir fremsta megni.

Skoðunina í heild sinni má nálgast hér

Tengt efni

Veðjað á rangan hest: Umgjörð veðmálastarfsemi á Íslandi

Þótt veðmálastarfsemi sé sniðinn þröngur stakkur hérlendis veðja fáar þjóðir …
12. september 2024

Réttum kúrsinn: Umbætur í opinberu eftirliti

Opinbert eftirlit stendur samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Íþyngjandi …
27. ágúst 2024

Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mars 2024